Fara í efni

RIGNINGIN, NÓBELSVERÐLAUNIN OG AFMÆLI BÚNAÐARBANKA ÍSLANDS

Með hliðsjón af minnisleysi forsætisráðherra í tengslum við þátttöku hans í sölu og kaupum á Búnaðarbanka Íslands haustið 2002 tel ég mér skylt að benda á að 1. júlí næstkomandi verða 75 ár liðin frá stofnun bankans. 25 ára afmæli bankans, árið 1955, rifjaðist einmitt upp fyrir mér þegar forsætisráðherra horfði um öxl, heil 50 ár aftur í tímann, í þjóðhátíðarræðu sinni á 17. júní síðastliðinn. Við það tækifæri hentaði það honum að muna annars vegar eftir miklu rigningarsumri og svo hins vegar nóbelsverðlaununum sem Halldór Kiljan Laxness landaði á því ári. Þótt ótrúlegt sé var ég búinn að gleyma rigningarsumrinu mikla og vil því launa ráðherranum hæstvirtum greiðann með því að minna hann á þetta kærkomna bankaafmæli.

Og af hverju ætti það ekki að henta hæstvirtum forsætisráðherra að minnast stofnunar Búnaðarbankans 1. júlí næstkomandi? Vita aðstoðarkjúklingarnir hans í forsætisráðuneytinu kannski ekki að forðum tíð þóttist Framsóknarflokkurinn vera helsti málsvari bændastéttarinnar í landinu og að ríkið kom Búnaðarbankanum á fót fyrir 75 árum, hinn 1. júlí árið 1930, til að styrkja og efla mannlíf í sveitum landsins? Ekki ætla ég að gerast svo upplitsdjarfur að biðja um heitt súkkulaði og rjómapönnukökur eins og boðið var upp á í 25 ára afmælinu forðum. En að mínum dómi er sannarlega við hæfi að minnast þessara merku tímamóta, stofnunar Búnaðarbanka Íslands, með einhverjum hætti og hverjum skyldi það þá standa nær en einmitt hæstvirtum forsætisráðherra, formanni bændaflokksins fyrrverandi? Mér fyndist a.m.k. þó nokkur virðing og e.t.v. akkur í því fólginn að hann tæki saman góða minningargrein fyrir Morgunblaðið þar sem hann stiklaði á stóru í sögu bankans. Hann hlýtur að luma á einhverju skemmtilegu úr fortíðinni þótt hann, að eigin sögn, viti því miður ekkert um hin óuppgerðu og dularfullu endalok bankans fyrir tæpum þremur árum, þegar hann þó sjálfur bæði seldi bankann og keypti hann eins og frægt er orðið og vottað er af Ríkisendurskoðun.

Þá er líka rétt, og ekki ráð nema í tíma sé tekið, að minna hæstvirtan forsætisráðherra á að Landssími Íslands verður 100 ára á næsta ári ef guð og ríkisstjórnin lofa. Þá ætti nú – undir öllum eðlilegum kringumstæðum – að vera sannkölluð hátíð í bæ um landið þvert og endilangt. Er nú bara vonandi að ekkert það komi upp á sem skyggt gæti á þau hátíðarhöld.
Þjóðólfur