ÚTBOÐ Á KOSTNAÐ STARFSFÓLKS

Ég vil bara benda á þegar sveitafélög eru að selja eða bjóða út vélmiðstöð, sorphreinsun og fl., þá er oftar en ekki verið að henda út af vinnumarkaði fólki með takmarkaða starfsorku. Fólk sem getur unnið hálfan daginn, eða jafnvel í 8 tíma við ákveðin störf. Þetta fólk dettur út vegna þess að eigendurnir vilja fátt starfsfólk hraust með mikil afköst. Þetta á líka við um þvottahús spítalanna en þar eru hugmyndir um að bjóða reksturinn út. Höfum það í huga. kv.
Sigurður H. Einarsson

Þakka þér bréfið Sigurður. Ég tek undir hvert orð í bréfi þínu. Það má bæta því við að eftir að ræstingar voru boðnar út í ýmsum opinberum stofnunum versnaði mjög hagur þeirra sem sinna þeim störfum. Enda skulum við ekki gleyma því að til þess er leikurinn gerður að skera niður útgjöld. Það reyna nýir eigendur að gera á kostnað starfsfólks og stundum gæða. Reyndar hef ég trú á því að útboð og einkavæðing sé dýrari en samfélagslega rekin þjónusta þegar upp er staðið, ekki síst á þeim sviðum þar sem samkeppni er ekki fyrir hendi.
Kveðja,
Ögmundur

Fréttabréf