Fara í efni

EFTRILAUNAHNALLÞÓRAN Á ALÞINGI

Þær eru margar og mis matarmiklar lífeyris og eftirlaunakökurnar í þessu þjóðfélagi sem þeir sem gegnt hafa ráðherra- og alþingismennsku hafa bakað sér, með hráefni frá okkur almúganum; alveg einstaka og matarmikla eftirlaunaköku og það sem meira er þeir geta farið að borða hana löngu áður en þeir í raun hætta störfum, eins og dæmin sýna. Síðan eru það starfsmenn ríkis og bæja. Á þeim bænum er alveg gulltryggt að kakan sem býður þeirra við starfslok, er alltaf fersk og heldur sínu næringargildi á öllum tímum. Komi í ljós að minnsta rýrnun hafi orðið á næringargildinu , þá er bara náð í meira fóður úr mjölpoka almennings. Og þá eru það þeir sem stritað hafa daginn langan á hinum almenna vinnumarkaði sem kallað er. Þegar vinnudegi þeirra lýkur bíður þeirra ekki dekkað hlaðborð með mörgum eftirlaunahnallþórum. Á þeim bænum er allt meira “Lotto”kennt. Eftirlaunakakan hjá þessum þjóðfélagshópi er mjög breytileg bæði að stærð og næringargildi . T.d við það að félagi í þessum hópi verði fyrir því óláni að verða öryrki um eftirlaunaaldur fram, þá bara minnkar kakan og næringargildi hennar hjá öllum hinum… Þessi hópur getur ekki farið í neina mjölpoka og bætt sér það upp. Það sama á við um geymslu og varðveislu eftirlaunakökunar hjá hinum ýmsu sjóðum almennings. Þar getur kakan bæði stækkað og minnkað eða með öllu horfið, allt eftir því hvort menn hafi verið heppnir eða óheppnir með gæslumenn eftirlaunakökunnar. Þegar allt um þrýtur bíða þeirra fáeinir næringarlitlir brauðmolar frá TR. Mér finnst orðið tímabært að þeir sem sitja efst í þessum eftirlaunapýramida fari að taka á þessu skelfilega óréttlæti sem viðgengst í þessum málum… Allavega gagnvart sjálfum sér hafa þeir skilið vandann.. þannig að hæg ættu heimatökin að vera.
Sævar Helgason

Sæll Sævar og þakka þér fyrir bréfið. Hjartanlega get ég tekið undir með þér hvað varðar eftirlaunarétt þingmanna og ráðherra. Ráðherrar og þingmeirihluti misnotuðu aðstöðu sína til að baka sjálfum sér stærri eftirlaunaköku en öðrum, svo við höldum okkur við þitt líkingamál. Hvað varðar eftirlaunaréttindi starfsmanna ríkis og bæja vil ég hins vegar ekki taka undir með þér nema að hluta til. Mér finnst það vera gott að hafa eftirlaunakerfið þannig að eftirlaunarétturinn sé föst stærð, en vingsist ekki til eftir árferði. Frekar er ég tilbúinn að taka einhverjum sveiflum í kaupmætti launatekna. Hins vegar vil ég að allir búi við slíkt öryggi á fullorðinsaldri. Í stað þess að sjá ofsjónum yfir því að sjúkraliðinn, skrifstofumaðurinn, slökkviliðsmaðurinn og strætastjórinn svo ég vísi til fjölmennra hópa í BSRB, hafi föst réttindi finnst mér að baráttan eigi að vera að tryggja öllum slík réttindi.
Hitt er svo rétt, að menn eiga allt undir því komið hvernig lífeyrissjóðunum gengur að ávaxta sitt pund. Á endanum er þetta þó spurning um hvernig kemur til með að viðra í efnahagslífunu þegar fram líða stundir. Það er nefnilega blekking að peningarnir séu geymdir einhvers staðar. Þeir eru í notkun og stóra spurningin er hvernig notandanum (efnahagslífinu)  reiðir af þegar kemur að skuldadögum. Þannig er það að gerast að eftirlaunafólk þarf að reiða sig á velgengni kapítalismans! Best væri að eftirlaunasparnaður okkar allra færi inn í samneysluna og til samfélagslega uppbyggilegra verkefna og allir fengju síðan greitt úr sama kerfinu. Slík viðhorf eru hins vegar ekki í tísku og hafa ekki verið um langt skeið.
Með bestu kveðju,
Ögmundur