Fara í efni

MANNI BLÖSKRAR!

Kæri Ögmundur. Það er svo fram af mér gengið hvernig sumt af þessu unga fólki í flokkunum er komið með andlitið á sér yfir heilu síðurnar og veggina. Eitthvað hlýtur þetta nú að kosta. Það er stóralvarlegt ef fólk þarf að eiga ósköpin öll af peningum til að geta verið í framboði. Þá hef ég áhyggjur af því að venjulegt vinnandi fólk geti ekki boðið sig fram til starfa í sveitarstjórnum. Ég heyrði um konu í Kópavogi sem ætlar að bjóða sig fram í 4. sæti í sínum flokki en er búin að láta prenta bækling og opna skrifstofu. Er ekki hægt að stoppa þetta eða semja um einhver skynsamleg takmörk?
Fjóla

Kæra Fjóla.
Ég er þér hjartanlega sammála. Prófkjörslýðræði eins og það tíðkast hjá Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsókn er ekkert lýðræði eða í besta falli mjög takmarkað lýðræði. Sá háttur sem VG í Reykjavík hafði við val á frambjóðendum fannst mér hins vegar vera til fyrirmyndar. Þeir voru valdir í opnum kosningum en án auglýsingaskrums. Útkoman varð mjög sterkur framboðslisti, með þeim Svandísi Svavarsdóttur, Árna Þór og Þorleifi Gunnlaugssyni í þremur efstu sætum. Á eftir þeim kemur fleira úrvalsfólk. Ég hlakka til að kjósa þennan lista.
Kveðja,
Ögmundur