Fara í efni

UM EFTIRLAUNAFORRÉTTINDI ÞINGMANNA OG RÁÐHERRA

Sæll Ögmundur.
Ég vildi benda þér á frétt í Fréttablaðinu 5. janúar og gera athugasemd við hana: Í fréttinni segir: "Eftirlaunafrumvarpið varð umdeilt og þá sérstaklega sú staðreynd að ráðherrar og þingmenn gætu hafið töku eftirlauna þó að þeir væru í fullu starfi hjá hinu opinbera." Þetta er röng fullyrðing. Andstaðan við eftirlaunafrumvarpið kom þessari svívirðu ekkert við, enda var hún ekki hluti frumvarpsins heldur laga sem hefði þurft að breyta um leið og hin nýju forréttindi þingmanna voru lögfest, 15. desember 2003. Það "gleymdist" hins vegar í flýtinum og leynimakkinu og varð ekki opinbert fyrr en í ársbyrjun 2005. Megn andstaða við eftirlaunafrumvarpið var vakin vegna þess að þingmenn tóku til við að auka forréttindi sín í lífeyrismálum, í stað þess að afnema þau. Þeir sem lengst af vissu einir um efni eftirlaunafrumvarpsins voru þeir sem högnuðust mest á því, persónulega. Það voru formenn stjórnmálaflokkanna. Þingflokkur Samfylkingarinnar sá frumvarpið t.d. fyrst 40 mínútum áður en það var lagt fram. Þegar upp komst að menn gætu verið á eftirlaunum og jafnframt í fullu starfi, kom fát á þingmenn. Halldór Ásgrímsson vildi leiðrétta en Davíð bannaði honum. Síðan hefur málið verið að bögglast fyrir þingheimi. Nú væri forvitnilegt að fá fréttir af því. Ég tel að þingmenn séu logandi hræddir að hreyfa við þessu. Þeir óttast að glata forréttindum sínum og vilja ekki rifja upp hvernig þeir sölsuðu þau undir sig. Þeim mun hærra hrópa þeir um græðgi annarra.
Kveðja,
Hjörtur Hjartarson