Fara í efni

ÁLVER OG UMHVERFISVÆNT ÞEKKINGARÞORP GETA VEL FARIÐ SAMAN!

Í lesendabréfi hér á síðunni skrifar Haffi af mikilli léttúð og ábyrgðarleysi um stefnu Samfylkingarinnar í stóriðju- og umhverfismálum. Hann sakar okkur Samfylkingarfólk um hentistefnu vegna þess að við styðjum af heilum hug fyrirhugaða álversframkvæmd í grennd við Húsavík. Og af hverju skyldi þessi mikilvæga atvinnuuppbygging norðan heiða vera hentistefna að dómi Haffa? Jú, hann er haldinn því dómgreindarleysi að það sé ekki hægt að vera hvort tveggja í senn; stóriðjusinni og umhverfissinni! Haffi skilur ekki – enda vinstri grænn að eigin sögn – að það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Þannig höfum við í kosningaundirbúnings- og samræðustýrihópi borgarmálaráðs Samfylkingarinnar komist að þeirri niðurstöðu að það sé einmitt mikið hagsmunamál fyrir okkur Reykvíkinga að álver verði reist í Vatnsmýrinni þegar flugvöllurinn hverfur þaðan. Slík þekkingarstóriðja mundi ekki bara skapa mikla atvinnu og útflutningstekjur heldur mundi hún aldeilis sóma sér vel innan seilingar við aðrar menningar- og hátæknistofnanir þjóðinnar. Svo aðeins fáeinar af þeirri gerðinni séu tíndar til má þar m.a. nefna Íslenska erfðagreiningu, Þjóðarbókhlöðuna og sjálfan Háskóla Íslands. Og talandi um Þjóðarbókhlöðuna þá er þar einmitt að finna dæmi um hvernig hlú má að náttúrunni með mannanna verkum. Í síkinu sem umlykur Þjóðarbókhlöðuna hafa reykvískar endur og gæsir tekið sér bólfestu í vaxandi mæli og una þar glaðar við sitt. Eitthvað þessu líkt, en þó stærra í sniðum, mætti einmitt hafa í huga þegar álverið í Vatnsmýrinni rís. Umhverfis það mætti búa til dágóða tjörn. Og hver veit nema að við slíka umhverfisframkvæmd umhverfis álverið muni létta svo af fuglalífinu á Reykjavíkurtjörn að hana megi einfaldlega ræsa fram og þurrka upp og mundi hún þá verða að dýrmætu byggingarlandi.
Ekki er það ætlun mín hér að spila út fleiri trompum okkar Samfylkingarfólks í komandi borgarstjórnarkosningum á þessari heimasíðu enda eiga þau svo sannarlega skilin annan og vinsamlegri vettvang. En að lokum vil ég bara segja við nefndan Haffa og félaga hans í VG að ofangreint dæmi um fyrirhugað álver í Vatnsmýrinni sýnir ljóslega að umhverfisvernd og stóriðja eru svo fjarri því að vera einhverjar andstæður. Spurningin snýst nefnilega oftar en ekki um það með hvaða hugarfari menn nálgast viðfangsefni sín. Og við í Samfylkingunni höfum notað samræðuaðferðina svonefndu með afar skapandi og sífrjóum árangri.
Þorsteinn