Fara í efni

LÍKA ARFTAKI Í BÓLI ÍHALDSINS?

Blessaður Ögmundur !

Alveg gekk vita fram af mér að sjá í sjónvarpinu áðan alla gömlu kratana á fíneríissamkomu í Ráðhúsinu og vera að hæla Alþýðuflokknum fyrir öll góðverkin. Ég man nú ekki betur en síðasta ríkisstjórn sem Alþýðuflokkurinn var í hafi innleitt sjúklingaskattana, hækkað skólagjöld og tekjutengt allar bætur til aldraðra, öryrkja og barnafólks. Nú segist Samfylkingin vera arftaki Alþýðuflokksins og vera stolt af því, og þá væntanlega öllu sem kratarnir gerðu. Og því má spurja, er þá Samfylkingin líka arftaki í því að fara í bólið með íhaldinu hvenær sem það býðst. Ég tek eftir því að frú Ingibjörg Sólrún útilokar alls ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í miklu stássviðtali í Fréttablaðinu nú um helgina. Hún er þar að tala um þann vanda í íslenskri pólitík að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf getað kippt einhverjum smáflokki upp í til sín sem meðstjórnanda. Alþýðuflokkurinn var nú auðvitað helsti smáflokkurinn sem það átti við um svo í því tilviki er allt í einu talað fyrirlitlega um hann sem meðstjórnanda eða hækju. En látum nú þessar mótsetningar í viðtalinu við formann Samfylkingarinnar vera. Það merkilegasta þar er auðvitað setningin um að Samfylkingin yrði ekki nein hækja í slíku stjórnarsamstarfi (með Sjálfstæðisflokknum), veruleikinn er breyttur segir Ingibjörg. Það er einmitt það, en ekki breyttur að þessu leyti að arftaki Alþýðuflokksins, Samfylkingin, getur vel hugsað sér að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum, en bara ekki sem hækja.

Svo verð ég að segja að mér fannst dapurlegt að sjá Alþýðusambandið dregið inn í þessa afmælissamkomu hjá Samfylkingunni til að heiðra krataflokkinn. Hvað með alla þá mætu forustumenn ASÍ sem tilheyrðu öðrum flokkum og hvað með allt það fólk í ASÍ í dag sem vill ekki láta bendla sig við Samfylkinguna. Ég hefði sem gamall verkalýðssinni og virkur félagi í ASÍ um áratuga skeið mætt með ánægju og stolti á raunverulega afmælissamkomu Alþýðusambandsins, en það hvarflaði ekki að mér að láta sjá mig þarna hjá Samfylkingunni. Ég var reyndar að vona að það væri einhver framför í Samfylkingunni frá gamla Alþýðuflokknum, en ég veit það svei mér ekki. Vill ekki ungi varaformaðurinn hjá þeim fara með einkareksturinn í heilbrigðismálin og svona. Ekki er ég sáttur við þetta stúss verð ég að segja Ögmundur og skít þessu svona að þér.

gamall Dagsbrúnarmaður