Fara í efni

SAMHERJAR Á SKRAFI

Ég fæ ekki betur séð en fjölmiðlarnir séu að draga upp nýjar átakalínur í heilbrigðisumræðunni. Í gærmorgun var mættur í morgunútvarp til að ræða heilbrigðismál, Ágúst Ólafur Ágústsson, Samfylkingu, og í gærkvöld sátu þau á skrafi hann og Ásta Möller þingmaður Sjálfstæðisflokksins einnig að ræða heilbrigðismál. Bæði vilja þau einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni nema hvað greiða á fyrir þjónustuna með skattpeningum. Ríkisstyrktur einkarekstur hefur alltaf verið snar þáttur í íslenska heilbrigðiskerfinu en deilurnar nú snúast um það hvort halda eigi lengra út á þá braut. Þar sýnist mér ekki hnífurinn ganga á milli Ágústs og Ástu.
Í þessu sambandi þarf að horfa til reynslunnar og minnist ég bæklings sem þið gáfuð út hjá BSRB nýlega um þetta efni þar sem sýnt var fram á hve mikið glapræði það er að halda með heilbrigðiskerfið út í einkavæðingu samkvæmt formúlum  Samfylkingar og Íhalds. Sannast sagna sé ég engan mun á þessum tveimur flokkum þegar kemur að stefnumörkun í heilbrigðismálum þótt Samfylking gangi um í þessu máli, eins og mörgum öðrum, klædd felulitum. Þannig að hinar nýju "átakalínur" eru ekki merkjanlegri en almennt gerist í skrafi sem samherjar eiga sín í milli.
Haffi

Þakka þér bréfið Haffi. Bæklingurinn sem þú vísar til er erindi Svíans Görans Dahlgrens og má nálgast HÉR
 og HÉR er tengt efni.
Með kveðju,
Ögmundur