UM ÁHYGGJUR OG ÁHYGGJULEYSI

Ég frétti af forsíðufrétt Moggans í dag, þegar sveitungi minn hringdi í mig og bað mig um ráðgjöf. Mogginn mun hafa greint frá því að skuldabréfum, sem peningamarkaðssjóðir í Bandaríkjunum hafa keypt af íslensku bviðskiptabönkunum fyrir tugi milljarða, hafi verið sagt upp.
Sveitunginn spurði: "Hvar á ég að geyma lífeyrissjóðinn minn?"
Ég svaraði að bragði. "Hvaða áhyggjur eru þetta?"
Las hann þá fyrirsögn Moggans og spurði "Hvað segir þú nú?"
Ég sagði honum að þetta minnti mig á gamla daga, víxilinn fellur og ég þarf að sækja um framlengingu, spurningin var hvernig liggur á bankastjóranum.
Nú standa einkavæddu bankastjórarnir skjálfandi á beinunum á biðstofunni eins og ég forðum og fá ef til vill ekki framlengingu. Hverjum datt í hug að stóra bankaævintýrið væri rekið á víxlum?
Að sjálfsögðu sagði ég það sama og síðast, skiptu við lífeyrissjóði verkalýðshreyfingarinnar.
Hvað um það, þegar ég hlustaði á fréttirnar áðan hafði Halldór ekki áhyggjur, bankastjórarnir höfðu engar áhyggjur, - þá fór ég að hafa áhyggjur.
Öfugt við þetta er þegar sömu menn gerast áhyggjufullir, til dæmis rétt fyrir kjarasamninga, þá veit ég að allt er í góðu, léttist þá heldur lundin og maður slær á létta strengi, - ástand sem ég þekki.
Runki frá Snotru

Fréttabréf