Fara í efni

FLAGGAÐ Í HÁLFA STÖNG Á HÁLENDINU: TJÁ SORG SÍNA VEGNA LANDSINS SEM VERÐUR FÓRNAÐ

Sæll Ögmundur.
Það gladdi mig og ég fann til stolts að heyra viðtal við Laufey Erlu Jónsdóttur landvörð í Kverkfjöllum í útvarpsfréttum í gærkveldi  og einnig á baksíðu Morgunblaðsins í  dag. En flaggað var í hálfa stöng víða á hálendinu í gær.

19. júlí 2002 er dapur dagur í sögu þjóðarinnar en þá skrifuðu   íslensk stjórnvöld og erlendi álrisinn Alcoa undir viljayfirlýsingu um byggingu  álvers á Reyðarfirði og  mestu náttúruspjöll Íslandssögunnar af mannavöldum, Kárahnjúkavirkjun var sett af stað.

19. júlí ár hvert síðan þá hafa landverðir flaggað í hálfa stöng á stöðvum sínum á hálendinu:

" Við viljum tjá sorg okkar vegna landsins sem verður fórnað undir virkjanir á hálendinu“ sagði Laufey Erla Jónsdóttir, sem hefur á hverju ári síðan þá tjáð náttúrunni tilfinningar sínar og annarra landvarða með þessum hætti.

 Mér er líka minnisstæð barátta Vinstri grænna á Alþingi gegn þessum hervirkjum , en þá stóðu þið einir flokka með náttúru Íslands gegn Kárahnjúkaflokkunum, Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu sem allir studdu hermdarverkin við Kárahnjúka  hvort sem var á Alþingi eða í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Laufey minntist á að íslensk stjórnvöld hafi beitt hótunum við þetta hugdjarfa fólk og sumt af því  ekki fengið endurráðningu til sömu starfa.

Hún væri hinsvegar ráðin hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs sem hefði allt annan hug til náttúrverndarmála en umhverfisráðherra Framsóknarflokksins. Ég minnist þess líka að þegar ofsóknir stjórnvalda með  Siv Friðleifsdóttur í broddi fylkingar gagnvart landvörðum stóðu sem hæst hvernig þú ásamt öðrum þingmönnum Vinstri grænna börðust á Alþingi og víðar við hlið þessara útvarða hálendis okkar. „Okkur finnst ástæða til að nota flaggið til að tjá sorg okkar yfir þeirri fórn sem verður færð fyrir þessa framkvæmd “ sagði Laufey í viðtalinu.
Landverðir eiga allan minn stuðning . Hafi  þeir þökk fyrir einarða baráttu sína.
Hafdís Guðmundsdóttir