OF STERKT ORÐALAG UM SPILAKASSA?

Las grein þína hér á síðunni um spilakassana, ekki þá fyrstu. Mér finnst rosalega sterkt orðalag hjá þér að "frábiðja sér ræðuhöld um ágæti Rauða krossins, Landsbjargar og HÍ á meðan þessir aðilar hafa fé af veiku fólki". Við þessa upptalningu mætti svo væntanlega bæta SÁÁ að ógleymdri íþróttahreyfingunni eins og hún leggur sig (eða er Lottóið og Getraunirnar þar sem aldurstakmarkið er ekkert undir aðra sök seld heldur en kassarnir)? Stóra spurningin er, og henni hef ég aldrei heyrt þig svara og kalla því eftir því hér: Trúir þú því að ef kassarnir yrðu bannaðir að þá yrði slíkt bann varanlegt? Ef ekki, er þá þessum fjáröflunarleiðum ekki betur fyrirkomið hjá líknar-og íþróttafélögum heldur en hjá hóteleigendum og burgeisum?
Tumi Kolbeinsson

Heill og sæll og þakka þér bréfið.
Hvort bann við spilakössum yrði varanlegt get ég ekki sagt til um. Hitt finnst mér augljóst að brýnt er að allt verði gert sem í okkar valdi er, til þess að stemma stigu við þessari spilamennsku. Ég hef kynnst svo mörgum alvarlegum afleiðingum þessa að mér finnst aðgerðaleysi af hálfu samfélagsins ekki forsvaranlegt. Það á ekki að viðgangast að sjúkt fólk sé haft að féþúfu. Það er dapurlegt hlutskipti fyrir Háskóla Íslands og síðan hjálparstofnanir og íþróttafélög sem við viljum bera virðingu fyrir - og gerum - að afla fjár með þessum hætti. Ég hef margoft sagt að verkefnið sé að finna aðrar leiðir til að tryggja fjárhag þessara aðila og skal ekki standa á mér að veita stuðning í því efni. Ég vil hvorki að "líknar- og íþróttafélög" né "hóteleigendur og burgeisar" hagnist á spilafíkn.
Með kveðju,
Ögmundur

Fréttabréf