Fara í efni

UMKRINGD SIÐLEYSI

Sæll Ögmundur.
Í sambandi við grein þína um starfslokagreiðslu fyrrum forstjóra Straums-Burðaráss, langar mig að benda á eftirfarandi: Hugsanlegt er að deyfð fólks gagnvart málinu megi meðal annars rekja til fulltrúa þess á Alþingi. Á Alþingi tóku forystumenn stjórnarandstöðunnar höndum saman við þá Halldór og Davíð og sviku út forréttindi sjálfum sér til handa. Eftirlaunaforréttindi með lítilli 50% launahækkun til formanna stjórnarandstöðunnar sem viðbit. Þótt litið sé fram hjá launahækkun til formanna stjórnarandstöðuflokkanna, hafa Samtök atvinnulífsins virt eftirlaunaforréttindin ein til 50 milljóna kr. starfslokagreiðslu fyrir þingmenn og til 100 milljóna kr. starfslokagreiðslu fyrir ráðherra. Síðustu fréttir af málinu eru þær að formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, telur vel koma til greina að láta af hendi þessi nýfengnu forréttindi gegn því að þau verði færð ínn í grunnlaun þingmanna og ráðherra - að glórulausri tillögu formanns VR. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að fólki fallist hendur gagnvart siðleysinu. Við erum umkringd siðleysi.
Kveðja,
Hjörtur Hjartarson