Fara í efni

NÚ BRÁST KASTLJÓSI BOGALISTIN

Ef það er rétt sem þú segir hér á síðunni, Ögmundur, að Steingrímur J. Sigfússon hafi verið búinn að fallast á að mæta Valgerði Sverrisdóttur í Kastljósi en hún hafi neitað að mæta nema ein, eins og þú getur þér til um að hafi gerst, þá áttu Kastljósmenn að láta Steingrím mæta einan en ekki Valgerði, sem setti afarkostina. Í sæti Valgerðar hefði mátt setja spjald þar sem á stæði að hún hefði neitað að mæta til þess að verja sinn málstað frammi fyrir pólitískum andstæðingi sínum. Sjónvarpið á ekki að láta bjóða sér þessa framkomu, ekki bara fyrir eigin hönd, heldur fyrir hönd okkar hlustenda og áhorfenda. Mér fannst spyrillinn í Kastljósinu ekki vera nógu aðgangsharður við Valgerði, sem át upp sömu tugguna aftur og aftur að allt væri þetta bara mál embættismanna og gaf okkur þar með til kynna að í rauninni væri þetta allt sér óviðkomandi. Er þetta Sjónvarpinu samboðið? Á að láta ráðherra komast upp með að setja sem skilyrði fyrir þátttöku í sjónvarpsþáttum að pólitískir andstæðingar komi þar hvergi nærri. Finnst þér þetta hægt Ögmundur?
Kveðja,
Sunna Sara

Nei, að sjálfsögðu gengur þetta ekki. Þetta er ósiður sem Davíð Oddsson innleiddi sem aldrei fyrr. Síðan hafa aðrir gengið á lagið. Auðvitað getur það gengið upp að stjórnmálamenn sitji einir fyrir spurningum fréttamanna. Stundum er hins vegar nauðsynlegt að þeir sem hafa verið í hringiðu þeirra atburða sem til umræðu eru fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að og rétta sinn hlut. Það átti við í þessu tilviki. Í þessum þætti vitnaði Valgerður ítrekað til ummæla Steingríms J. Sigfússonar án þess að hann gæti komið vörnum við og fréttamaðurinn, Kristján Kristjánsson, hafði, eðli máls samkvæmt, ekki vitneskju um alla þá þætti sem hefðu þurft að koma upp. Kristján er prýðilegur fréttamaður og tekst oftar en ekki mjög vel upp, einnig í hörðum pólitískum viðtölum, en ég hafði á tilfinningunni að hann hefði undirbúið sig fyrir annars konar þátt en þann sem endanlega varð reyndin. Ég er sammála þér Sunna Sara að Sjónvarpið má ekki þjóna lund ráðherra sem þora ekki að mæta pólitískum andstæðingum sínum. Þeir mega ekki komast upp með slíkt.
Kveðja,
Ögmundur