Fara í efni

EKKI LESA ÞETTA, ÞAÐ ER EKKERT AÐ MARKA MIG!

Mikið hefur verið rætt og ritað um meðferð stjórnvalda á skýrslu Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings frá árinu 2002 um áhættuþætti Kárahnjúkavirkjunar og ábendingar hans um alls endis ófullnægjandi rannsóknir. Eðlilega hafa stjórnvöld verið sökuð um yfirhylmingu enda var erindi Gríms strax stimplað trúnaðarmál og því stungið undir stól – en það barst stjórnvöldum vel að merkja rétt í þann mund sem fyrirhuguð risavirkjun kom til meðferðar og afgreiðslu Alþingis.
Eðli málsins samkvæmt hefur þessi sérkennilega málsmeðferð stjórnvalda fyrst og fremst mætt á Valgerði Sverrisdóttur fyrrverandi iðnaðarráðherra. Hún hefur varist öllum ásökunum um yfirhylmingu með því að hamra stöðugt á því að í skýrslu Gríms hefði einfaldlega “ekkert nýtt” verið – og einmitt þess vegna hefði hún ekkert erindi átt til alþingismanna sem voru að hefja umræður og afgreiðslu á þessu umdeilda stórmáli. Þrátt fyrir sérstakan neyðarfund Landsvirkjunar og Orkustofnunar um skýrsluna var í henni “ekkert nýtt” að sögn Valgerðar og í Kastljósi 30. ágúst sl. vísaði hún til orða vísindamannsins sjálfs, þessari síendurteknu fullyrðingu sinni til stuðnings. Þar sagði fyrrverandi iðnaðarráðherra orðrétt til að sanna sitt mál: “enda segir Grímur sjálfur í sínu bréfi að hann vonist til þess að með vísindalegum rökum sé hægt að hrekja þessi atriði.”
Þrátt fyrir mikinn velvilja undirritaðs í garð Valgerðar Sverrisdóttur verður því miður ekkert annað séð en þarna geri hún sig seka um afar grófan útúrsnúning á orðum Gríms. Öll fagleg vinna vísindamanna grundvallast á þeirri meginreglu að málflutningur þeirra og niðurstöður séu teknar alvarlega, þær fái ítarlega umfjöllun annarra fræðimanna sem geti sannreynt tilgátur þeirra eða niðurstöður eftir bestu getu, og eingöngu á þeim grunni hafnað þeim eða tekið undir þær. Þetta veit Valgerður Sverrisdóttir, háttvirtur ráðherra og þingmaður til margra ára, eins vel og ég og því er eðlilegt að spyrja: Hvenær og með hvaða hætti voru athugasemdir Gríms hraktar “með vísindalegum rökum”? Hvaða vísindamenn unnu það verk og af hverju hafa niðurstöður þeirra ekki verið birtar opinberlega? Einmitt með opinberri birtingu á þessu vinnuferli væri málsvörn Valgerðar ef til vill aðeins betur borgið. Varla getur það verið feimnismál að draga þessi væntanlega mikilsverðu gögn fram í dagsljósið. Ég hvet fyrrverandi iðnaðarráðherra eindregið til að gera það hið fyrsta í stað þess að gera því skóna að Grímur Björnsson hafi sjálfur sagt í sinni skýrslu að hún væri gagnslaust plagg; þannig væri nefnilega í pottinn búið að ekkert mark væri á sér takandi.
Þjóðólfur