Fara í efni

EIN DÝRASTA LÓÐ ÍSLANDSSÖGUNNAR?

Heill og sæll Ögmundur.
Á heimasíðu matsnefndar eignarnámsbóta er athyglisverður úrskurður kveðinn upp 29. mars s.l. Lesa má hann á slóðinni: http://www.rettarheimild.is/DomsOgKirkjumala/MatsnefndEignarnamsbota/2006/03/29/nr/2173

Í úrskurði þessum er fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins fært á silfurfati á 3ja hundrað milljónir króna í bætur fyrir eignanám á 3,6 ha spildu við Rauðavatn. Rökstuðningur nefndarinnar er sérstaklega allra athygli verður: hver fermetri í eigu fyrrum framkv.stj. er metinn á verði og lagt til grundvallar hæsta fermetraverð sem greitt hefur verið fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að verulegur hluti þessarar einna dýrustu lóðar Íslandssögunnar verður einungis helgunarsvæði samgöngumannvirkja, vega og hringtorgs! Þar verður sennilega lítið byggt, kannski ekki nokkur skapaður hlutur. Þá er gróður á spildunni metinn á 6.4 milljónir eða meira en góð frístundalóð kostar! Dýr myndi allur gróðurinn í Kárahnjúkadölum verða metinn eftir þessu! Mér finnst fara furðu hljótt um þessar staðreyndir enda hefðu þær komið sér illa fyrir þá sem græðginni eru haldnir. Í síðustu sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor, klifaði Sjálfstæðisflokkurinn á mjög slæmri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Ekki verða þessi aukaútgjöld til að bæta úr en þessar 208 milljónir þýða nær 2.000 króna gjald á hvern einasta Reykvíking. Mér finnst rétt að benda sem flestum á þetta og kannski mætti hefja umræðu um nauðsyn siðvæðingar í stjórnmálum. Með 208 milljónum má kannski "kaupa" nokkra þingmenn og hafa þá til taks við meðferð vissra mála á þingi.
Kveðjur ,
Guðjón Jensson, Mosfellsbæ