Fara í efni

STÓRÞJÓFUR Í OPINBERRI HEIMSÓKN?

Heill og sæll Ögmundur.
Ég las um það í Blaðinu að Roman Abromovits, Chelsea-eigandi, væri kominn til Íslands í opinberri heimsókn á vegum forsetaembættisins. Ef ég man rétt þá er var Abromovits einna afkastamestur í hópi þeirra manna sem stálu eignum rússnesku þjóðarinnar á einkavæðingartímanum í Rússlandi. Finnst þér rétt Ögmundur að bjóða stórþjófi í opinbera heimsókn til Íslands, jafnvel þótt Íslendingar geti hagnast á því? Mér finnst það ekki. Forsetaembættið á að halda sig til hlés þegar svona mannskapur er annars vegar. Það á ekki að gera Ísland að sérstöku gistilandi, eins konar andlegum griðastað auðkýfinga með vafsama fortíð.
Sunna Sara

Sæl Sunna Sara og þakka þér fyrir bréfið. Ég held það hafi verið misskilningur hjá Blaðinu að Abromovits sé í opinberri heimsókn til Íslands. Hins vegar er hann greinilega á snærum forsetaembættisins. Ég tek undir með þér að við eigum ekki að púkka upp á svona mannskap. Það er skelfilegt hve mikil dýrkunin er orðin á auðmönnum og virðist þá engu skipta hvernig fjárins var aflað. Varðandi þennan tiltekna mann þá hefur hann nokkrum sinnum borið á góma á þessari síðu sbr. HÉR og HÉR.
Með kveðju,
Ögmundur