ÁSTANDIÐ Í ÍRAK ALDREI VERRA EN EFTIR INNRÁS

Komdu blessaður! Enn er ég að tefja þig með mínum póiitíska óróa. Man ég það ekki rétt að það hafi verið þú sem E.Kr.Guðfinnsson bölsótaðist við inni á Alþingi eitthvað á þessa lund: "En þú skuldar mér svar við því hvernig við áttum að losna við Saddam"! Hvenær leyfist að kalla alþingismann fífl? Eru svona menn - því Einar var að sjálfsögðu ekki einn um þessa afstöðu - færir um að fara með umboð íslenskra kjósenda?, mér er spurn. Og hvenær fékk umr. þingmaður og ráðherra bænaskjal frá írösku þjóðinni varðandi atbeina Íslendinga við að losa Íraka við harðstjórann Saddam Hussein? Ber ekki öllum vestrænum leiðtogum saman um að ástandið í Írak hafi aldrei verið alvarlegra en eftir innrás Bandaríkjamanna og stuðningsríkja þeirra. Er það metnaður okkar litlu þjóðar að senda einhver "komdu ef þú þorir" skilaboð til stríðsóðra vitfirringa? Nei auðvitað ekki. Lokaði Davíð ekki "vitleysumræðunni" um Íraksstríðið með yfirlýsingu um að það væru allir Írakar himinlifandi með innrásina utan að það væru einhverjar hnippingar og minniháttar áflog í einum fimm hreppum sem litlu máli skiptu náttúrlega í svona stóru samhengi.

Og enn koma mér í hug orð eins bóndans og sóknarbarns afa míns fyrir vestan þegar hann bar sig upp vegna ósmekklegrar orðræðu granna sinna um hann ómaklega: "Ef þetta eru menn, séra Árni, af hverju er ég þá ekki eitthvað meira en maður".
Árni Gunnarsson frá Reykjum.

Fréttabréf