Fara í efni

BANKATAL Á VILLIGÖTUM?

Sæll Ögmundur.
Hvers vegna talar þú svona niðrandi um þá aðila sem vinna hjá bönkunum og hafa komið sér vel áfram í grein þinni 1.11.06? Mér finnst skrif þín ekki hæfa stjórnmálamanni sem situr á alþingi sem málsvari þjóðarinnar og óska eftir að þú endurskoðir ummælin. Að lokum, eru ekki tekjuskattar á fyrirtæki 18%? Taktu síðan allt inn í reikninginn þegar þú fjallar um skattgreiðslur bankanna, alla hliðarskatta sem renna í því miður í of gilda sjóði ríkisins.
Björgvin

Þakka bréfið Björgvin. Ummæli mín eru á engan hátt niðrandi í garð starfsmanna bankanna enda alls ekki hugsuð á þann veg. Ég hef alla tíð kunnað að meta það sem vel er gert í íslensku bankakerfi og hef margoft haldið því á loft í umræðu um þessi efni. Það sem mér hins vegar blöskrar er sú misskipting sem fer ört vaxandi í íslensku þjóðfélagi og hefur kristallast í himinháum greiðslum  til toppanna í bankakerfinu. Þegar þessu hefur verið andæft hefur því oftar en ekki verið mætt með hrokafullum hætti af þeirra hálfu og þeir sagst myndu bara fara af landi brott ef menn ætluðu eitthvað upp á dekk. Misskiptingin er smám saman að gagnsýra allt þjóðfélagið og birtist þar í ýmsum myndum. Mín niðurstaða hefur síðan orðið sú að ég er ekki reiðubúinn að fórna íslenska jafnaðarsamfélaginu fyrir eigendur og stjórnendur fjármálastofnana. Auðvitað vil ég halda íslenskum bönkum á Íslandi og að þeim vegni hér vel. Það sem ég er einfaldlega að segja er að þeir sem aðrir verði að gæta hófs vilji þeir vera hluti af samfélaginu. Annars segja þeir sig einfaldlega frá því. Það er þetta sem mín ummæla endurspegla.
Varðandi skattprósentuna þá er það rétt hjá þér að tekjuskattur fyrirtækja er 18% en tekjurnar af fjármagninu er hins vegar 10%.
Þér finnst sjóðir ríkisins vera of gildir. Þar er ég þér ekki sammála - alla vega þegar hugsað er til l fjármögnunar velferðarþjónustunnar, sjúkrahúsa og skóla.
Með kveðju,
Ögmundur