ENN UM BANKANA OG ÓJÖFNUÐINN

Sæll Ögmundur.
Ég vil byrja á að þakka þér fyrir þessa mjög svo góðu heimasíðu þína, hún er öðrum til eftirbreytni. En eitt er það sem hefur verið að trufla mig undangengnar vikur, það eru ummæli þín um bankana og þátt þeirra í vaxandi ójöfnuði hér á landi. Áður en ég geng að kjörborðinu nú á vori komanda verð ég að vita hvort þetta sé eitthvað sem þú og þínir flokksbræður-og-systur komið til með að beita ykkur fyrir þ.e. að koma bönkunum úr landi.Og ef svo er hvort fleiri fyrirtæki sem verður það á að greiða fólki há laun mega búast við hinu sama.
Með von um greið svör.
Sigurjón Njarðarson

Sæll Sigurjón og þakka þér fyrir bréfið. Ætli þeir séu margir sem eru meiri áhugamenn en ég að hafa í landinu öflugt og gott bankakerfi. Staðreyndin er sú að íslensku bankarnir eru mjög öflugir og bjóða upp á góða þjónustu. Ekki vil ég að við verðum af henni. Það er ekki þar með sagt að bankarnir - eða öllu heldur forsvarsmenn þeirra - eigi að geta sagt íslensku samfélagi fyrir verkum. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni í þessu máli í greinum og pistlum sem birst hafa í blöðum og einnig hér á síðunni. Ég leyfi mér að vísa þér t.d. á þessa grein HÉR.
Með bestu kveðju,
Ögmundur

Fréttabréf