Fara í efni

HVAÐAN Á AÐ TAKA PENINGANA?

Mér finnst einmitt athyglisvert að þú skulir ræða hversu miklu þurfi að fórna til að "losna" við nokkra stráka og stelpur í silkigöllum. Nú er það svo að bankarnir eru nú þegar búnir að borga 16,7 ma.kr. fyrstu 9 mánuðí ársins en ekki 11 (samkvæmt ársreikningum) auk þeirra skatttekna sem laungreiðslur "þotuliðsins" skila og annara greiðsla og framlaga banka til samfélagins. Til að setja þetta í samhengi má benda á að fyrir þessa upphæð má til dæmis greiða öll framlög ríkisins til menningar- og kirkjumála eða öll útgjöld ríkisins til löggæslu- og öryggismála. Ef "senda" á bankanna úr landi þá þarf líklega að fá þessar tekjur einhvers staðar. Þessi upphæð er svipuð og allar tekjur ríkisins af vörugjöldum, spurning um að tvöfalda þau ??
Pétur

Þakka þér bréfið Pétur. Það er rétt að horfa ber á samhengið á milli skatta og þess sem má fyrir þá fá. Ekki hef ég verið talsmaður niðurskurðar á sköttum enda vil ég mikið fyrir þá fá. Það sem ég er hins vegar að vekja athygli á er hvernig verið er að greiða götu misskiptingar inn í íslenskt samfélag. Ef misskiptingin í þeim mæli sem við erum að verða vitni að verður varanleg mun hún setja mark sitt á allt líf þessarar þjóðar til frambúðar. Mér finnst það vera mikilvægt að við leiðum alvarlega hugannn að því.
Með kveðju,
Ögmundur