Fara í efni

JÖFNUN NIÐURÁVIÐ HÆTTULEGRI JAFNAÐARSAMFÉLAGINU EN OFURLAUN Í BÖNKUM

Blesaður Ögmundur.
Út af umræðuna um ofurlaunin hjá bönkunum þá held ég að megi nálgast launabilið og  jafnréttið líka frá öðru sjónarhorni.
Lægstu launum og millitekjum er nú kerfisbundið haldið niðri með innflutningi á erlendu vinnuafli. Stjórnvöld beita nú innflutningi á erlendu vinnuafli sem hagstjórnartæki til að halda kjörum niðri.  Hver atvinnugreinin á fætur annarri fellur nú fyrir láglaunastefnu ríkistjórnarinnar sem hún beitir með innflutningi á erlendu vinnuafli. Taktu eftir orðavalinu sem stjórnvöld og þeir atvinnurekendur sem aðhyllast þessa stefnu nota: Þeir tala um " Vinnuafl"  en ekki "fólk". Fyrst var ráðist á atvinnugreinar ófaglærðra kvenna , ræstingu, gæslu, mötuneyti ofl.  Konum sagt upp, kannski boðið aftur starf á lægri kjörum og kröfum um meiri vinnu. Eldri konur sendar heim á örorku og lífeyrisbætur. Síðan  er ráðið erlent fólk á miklu lakari kjörum. 
Við munum eftir "uppmælingaaðlinum" iðnaðarmönnunum, trésmiðunum, múrurunum, járnabindingamönnunum, pípulagningamönnunum sem þóttu hátekjumenn á sínum tíma. Þeir eru ekki lengur til. Nú eru þessi störf unnin af erlendum mönnum á lágmarkskjörum.  Ég er viss um að gæði byggingarvinnunnar hefur ekki batnað. Sjómennirnir með háu tekjurnar, burðarásar í sínu samfélagi eru  líka að hverfa. Ekki er það fagnaðarefni.  Brátt verður ráðist á hinar svo kölluðu menntuðu greinar með innflutningi á erlendu fólki til að lækka þar líka kjörin.  
Ekki viljum við jafna allt niður á við og beita öllum brögðum til að halda öllum kjörum niðri í nafni jafnaðarstefnu?  Við hljótum að vilja  hækka jöfnuðinn upp á við?
Ég skil þig vel Ögmundur að  finnast nóg um laun sumra hálaunamanna t.d.  í bankageiranum. Mér finnst þó kostur ef þau eru gefin upp sem launatekjur.  Það eru hinsvegar söfnun eigna og eignatekjur manna og sem jafnvel ekki er greiddur eðlilegur skattur af sem mér blöskrar. En þeir vinna ekki endilega í bönkum. Það er annað mál.  Ég held og er reyndar viss um að láglaunastefnan og samfélagsbreytingin  gegnum innflutning á erlendu vinnuafli sem hagstjórnartæki stjórnvalda er  miklu alvarlegra mál fyrir velferð og jöfnun tekna í landinu en há laun toppanna í bönkunum - hversu siðlaus þau annars kunna að vera.
Haldi fram sem horfir getur verið styttra í en margan hyggur að  þeir sem starfa sem  verkfræðingar,  háskólakennarar, læknar  og bankamenn hér á landi verði ótalandi á íslensku einmitt í nafni "jafnlaunastefnu" stjórnvalda  og þannig hugsandi fyrirtækja.
Ekki er það þróun sem við viljum sjá, er það? 
Með góðri kveðju,
JB