MANNLEGUR ÞÁTTUR

Sæll Ögmundur.

Hlustaði á ritstjóra Morgunblaðsins segja frá lífi sínu og samferðamanna sinna í kvöld og fannst hann mannlegur af því hann er augsýnilega breyskur. Hann sagði frá því af hverju hann kaus á þessari öld að birta ekki einkagögn sem hann gerði útá á síðustu öld. Hér á ég við hin persónulegu Baugsgögnin annars vegar, sem hann geymdi í skúffu sinni, og hins vegar SÍA skjölin sem hann birti á sínum tíma þótt gögnin væru bæði persónuleg og stolin. Birting á hvoru tveggja fór fyrir dómstóla.

Mér fannst hann líka mannlegur af því hvernig hann talaði um vini sína sem hann leggur sig fram um að halda góðu sambandi við. Það rennur líka í honum réttlætistaug í samfélagsmálum. Kannski var það þess vegna sem þeir kölluðu hann sósíalista félagar hans og vinir. Ritstjórinn sagði eitthvað á þá leið að í okkar litla samfélagi gætum við ekki látið nokkrar viðskiptablokkir eignast Ísland allt og þær mættu ekki ráða öllu. Þetta mætti ekki verða eins og var þegar einn kall réð öllu í hverju plássi.

Það sem ritstjórinn sagði af alkunnri hógværð blandað misstórum skammti af yfirlæti kallaði á fleiri spurningar og næmari skilning á hvað maðurinn var að tala um en spyrillinn sýndi í þessum þætti. Kannski er það formið sem ekki leyfði spyrjandanum að ganga lengra. Þennnan ritstjóra Morgunblaðsins taka menn ekki í hálftíma spjall. Til þess er sögulegt mikilvægi þess sem maðurinn hefur að segja of mikið.

Þegar ritstjóri Morgunblaðsins lýsir því að stjórnmálamenn sýni einkennum einokunar og valdasamþjöppunar í samfélaginu tómlæti þá er hann líka að tala til ykkar Vinstri grænna Ögmundur, gættu að því. Hann er að tala um þá sem hafa farið með völdin síðustu fimmtán ár. Hann er með sínu lagi að draga upp mynd af samfélagsbreytingunum sem hér hafa orðið og byggjast á afnámi hafta, einkavæðingu og byltingu í skattkerfi landsins þeim í hag sem mega, eiga og erfa. Þessi mannanna verk, breytingarnar á skattkerfi fyrirtækjanna, setning laganna um einkahlutafélög, breytingar á skattlagningu tekna sem vaxtaokur, verð- og hlutabréf skila eigendum sínum og sala á eignum ríkisins langt undir markaðsvirði, allt þetta hefur fætt af sér einokun og valdasamþjöppun. Í skálaræðum tala stjórnmálamenn um að aðgerðirnar sem hér er rætt um hafi verið almennar og gripið til þeirra til að tryggja almannahag. Landstjórnin síðustu fimmtán ár hefur skilað okkur samfélagi sem einkennist af einokun, valdasamþjöppun og seljendum vöru og þjónustu sem okra á neytendum án þess að stjórnvöld hafi beitt valdi sínu til að koma í veg fyrir þessar afleiðingar.

Fylgdarkonur einokunar og valdasamþjöppunar eru kúgunin, og ógnunin. Það er skoðun mín að DV hafi hér áður og fyrr, stundum vitandi, eða óafvitandi, orðið tæki til að ógna. Ég man ekki hver bar ábyrgð á forsíðu DV sem átti greinilega að hræða eða ógna ritstjóra Morgunblaðsins í orrahríð sem tengdist Baugsmálum og varð til þess að einum eiganda fjölmiðlasamsteypunnar var meira að segja ofboðið og steig fram og fordæmdi birtingu DV. Ritsjórinn lét ekki ógna sér þrátt fyrir ljótan leik og á hrós skilið fyrir.

Ég bíð eftir að ritstjórinn fjalli beint um eina afleiðingu þeirra mannanna verka sem nú er að grafa um sig í íslensku samfélagi, kúgunina, á sama hátt og hann hefur fjallað um kvótann. Sömu rök má nota gegn kúgun, bakhlið fátæktar og ósjálfstæðis, og ritstjórinn notar gegn samþjöppun, einokun og viðskiptablokkunum sem gert var að eignast Ísland.

Vona Ögmundur að þú hafir séð þennan mannlega þátt ritstjórans. Hafirðu ekki séð hann skaltu sjá hann því í orðum ritstjórans felst að mínu áliti hvatning til að taka til umræðu aðgerðir og afleiðingar sem hugsanlega eru að skapa hér samfélag sem engin okkar hefur kosið sér - ekki einu sinni þeir sem af takmarkaðri útsýn misstu úr böndunum það sem þeir töldu sig vera að gera réttast. Viðtalið við ritstjórann kallar á upplýsta, fordómalausa umræðu um framtíðina. Umræðu sem byggist á því besta úr íslenskri siðfræði. Skora á þig að kallast á við ritstjórann. Mannlegur þáttur hans kallar á verðuga andstæðinga og ekki vitleysinga.

Kveðja,
Ólína

Fréttabréf