Fara í efni

NÚ ER ÞÖRF Á YFIRVEGUN UM MÁLEFNI ERLENDS LAUNAFÓLKS

Þá er innflytjendaumræðan komin á fullt á Íslandi. Ég vildi óska að við bærum gæfu til að höndla hana á yfirvegaðan og skynsamlegan hátt. Sannast sagna þóttu mér yfirlýsingar Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þingmanns Frjálslyndra,  fara yfir strikið og báru þess vott að hann vildi gera út á þetta málefni í kosningum. Árásir og gagnrýni á alla aðra stjórnmálaflokka á Alþingi - þ.e. alla aðra en hans eigin flokk - báru þessu vott. Auðvitað er hér á ferðinni mál sem taka þarf á af yfirvegun og með víðtækri sátt og einingu í þjóðfélaginu.
Áhyggjur Magnúsar Þórs eru ekki nýjar af nálinni. Þú gerðir þetta sérstaklega að umræðuefni á nýafstöðnu þingi BSRB og fannst mér áherslur þínar þar hárréttar. Þær hafa verið til umræðu mikið á netinu að undanförnu og fannst mér Guðmundur Magnússon, blaðamaður og rithöfundur hitta naglann á höfuðið þegar hann óskar eftir umræðu um málefnið en á þeim nótum sem þú lagðir upp með. Hér er slóðin: http://gudmundurmagnusson.blogspot.com/2006/11/rasismi-ea-rttmtar-hyggjur.html
Með kveðju,
Grímur

Þakka þér bréfið Grímur. Það er rétt hjá þér að á þessu málefni þarf að taka á yfirvegaðan hátt og beina gagnrýninni þangað sem hún á heima. Hún á heima hjá stjórnvöldum sem bera ábyrgð á bullandi þenslu í landinu og hjá atvinnurekendum sem gjarnan vilja undirboð á íslenskum vinnumarkaði til að keyra kjörin niður. Þeir flytja inn fólk án afláts - fólk sem þeir síðan telja sig geta hent á haugana þegar ekki er lengur þörf fyrir það. Þetta er stórhættulegt viðhorf  og mannfjandsamlegt.
Kv. Ögmundur
P.S.
Eftirfarandi er bútur úr ræðu minni á þingi BSRB fyrir hálfri annarri viku:
"...Staða á íslenskum vinnumarkaði er um margt sérkennileg. Markaðurinn er nú opnari en dæmi eru um frá fyrri tíð. Þegar saman fer opinn vinnumarkaður og gífurleg þensla sem haldið er uppi með gríðarlegum framkvæmdum af hálfu einkaaðila og einnig á vegum hins opinbera þá er ekki að sökum að spyrja - hingað streymir fólk án afláts. Á þessu ári hafa sjö þúsund manns komið inn á vinnumarkaðinn erlendis frá; í september mánuði einum um tólf hundruð einstaklingar. Er þetta heppilegt þróun? Ég segi nei. Á þenslutímum ber hinu opinbera að sýna aðhald í framkvæmdum – ekki í rekstri. Það er einfaldlega ekki hægt að spara í rekstrarkostnaði geðdeildar en það er hægt að fresta ýmsum framkvæmdum sem ekki eru bráðnauðsynlegar. Þenslunni er að hluta haldið uppi með viðskiptahalla og gífurlegri skuldsetningu. Þegar þessu skeiði sleppir og þrengist að, þá skulum við hafa það í huga að hinu aðkomna vinnuafli verður ekki hent á haugana. Þetta er lifandi fólk, iðulega með sínar fjölskyldur og að sjálfsögðu allar sínar mannnlegu þarfir.

Við verðum að gæta okkar á því að fara ekki of geyst í sakirnar. Við verðum að geta búið fólki mannsæmandi kjör og réttindi eins og þau gerast best hjá íslenskum þegnum. Að öðrum kosti verður hér klofið samfélag.
BSRB tekur þátt í vinnu á vegum félagsmálaráðuneytisins um þessi efni. En ég vil nota þetta tækfæri til þess að lýsa þungum áhyggjum af því sem nú er að gerast á íslenskum vinnumarkaði.

Í láglaunastörf víða í atvinnulífinu og innan velferðarþjónustunnar hópast nú aðkomufólk sem boðið er upp á kjör sem Íslendingar sætta sig ekki við; kjör sem þetta fólk þiggur oft og tíðum fegins hendi vegna neyðar og skorts í heimahögunum. Það er rangt sem stundum er sagt að Íslendingar sætti sig ekki við sum störf og flýi þau af þeim sökum. Hið rétta er að þeir sætta sig ekki við þau kjör sem í boði eru og flýja þau þess vegna. Þetta er nú að gerast á sjúkra- og hjúkrunarstofnunum. Fólk sættir sig ekki við vinnuálag, aðbúnað og launakjör, hugsanlega í þessari forgangsröð; neitar að vinna störfin. Við glímum nú við það í samstarfi við viðsemjendur okkar að bæta vaktafyrirkomulagið innan grunnþjónustunnar með það fyrir augum að gera það meira aðlaðandi. Við höfum ráðist í umfangsmiklar kannanir í þessu augnamiði og sú niðurstaða sem ég hef komist að fyrir mitt leyti er að manneklan veldur því, ekki síst á sjúkrastofnunum, að ekkert kerfi getur gengið upp. Ef ekki eru settir umtalsverðir fjármunir inn í heilbrigðiskerfið núna þá verður þar stórslys. Þetta leyfi ég mér að fullyrða..."