OFSÓKNARÆÐI GEGN BORGARALEGUM RÉTTINDUM

Sæll Ögmundur.
Upplýsingarnar um að heima - og vinnusímar Hannibals Valdimarssonar hafi verið hleraðir eru enn eitt áfallið fyrir íslensk stjórnvöld. Nei, þetta er enn eitt áfallið fyrir íslenskt samfélag. Falleinkunn hins unga íslenska lýðveldis. Og það er ekki aðeins að brotið hafi verið á Hannibal Valdimarssyni. Það var brotið á allir fjölskyldunni. Hvers átti Sólveig Ólafsdóttir eiginkona Hannibals að gjalda? Ógnaði hún öryggi ríkisins? Hvers áttu börn Hannibals að gjalda sem notuðu heimasímann 1961, barnabörnin, vinirnir eða skyldmennin sem notuðu símann? Brotin gegn þessu fólki og öðrum sem beittir voru órétti af því tagi sem íslenska ríkið gerði sig sekt um eru svo alvarleg að ekki verður við unað. Handhafar þess valds sem fóru fram á að brotið væri gegn helgum rétti einstaklinga eru aumkunarverðir þótt tekið sé tillit til aðstæðna sem einkenndust af sjúklegri tortryggni. Skoðun mín er sú að við ættum að fyrirgefa þessu fólki. Fyrirgefning okkar sem samfélags ætti að felast í því að leggja öll spil á borðið og yfirbótin ætti að felast í að við sem samfélag látum söguna ekki endurtaka sig. Handhafar opinbers valds dagsins í dag sem láta sig dreyma um eftirlitsþjóðfélag sem byggist öðrum þræði á að brjóta á helgum borgaralegum rétti einstaklinga eru annað hvort sjúklega totryggnir, eða eru haldnir ofsóknaræði í læknisfræðilegum skilningi orðsins. Uppgjör okkar sem samfélags á að snúast um að stöðva slíka menn. Eru þeir menn ennþá til að þínum dómi Ögmundur?
Kveðja,
Ólína

Þakka þér bréfið Ólína. Ég er þér hjartanlega sammála. Auðvitað snýst þetta um brot á mannréttindum, ekki aðeins mannréttindum þeirra einstaklinga sem til stóð að njósna um, heldur fjölskyldna þeirra einnig. Ég held að hroll hafi sett að mörgum þeim sem að undanförnu hafa verið að leita eftir upplýsingum um njósnir á heimili sínu, þegar upplýst hefur verið að fulltrúar íslenska ríkisins hafi legið á hleri og fylgst með samræðum þeirra, og jafnvel tekið þær upp á band. Þú spyrð, eru enn til menn sem gætu gert slíkt? Já, þeir eru til, hafa alltaf verið til og verða sennilega alltaf til. Þess vegna þurfum við að vanda okkur þegar við smíðum umgjörðina um lýðræðis- og mannréttindasamfélagið. Það er rangt að einblína þar á öryggisþætti. Það eru ekki síður öryggisventlarnir sem skipta máli; öryggisventlar gegn ofsóknum, einelti og valdníðslu af hálfu Stóra Bróður.
Með kveðju,
Ögmundur

Fréttabréf