STÖLDRUM VIÐ NÚ ÞEGAR KOSNINGAR NÁLGAST

Einar Ólafsson skrifaði á dögunum góða grein á síðuna sem bar nafnið: Verkalýðshreyfingin alltaf jafn mikilvæg. Bara þessi titill ætti að vera nóg til þess að menn og konur stöldruðu við. Að mínu mati hafa þingmenn VG sumir hverjir gleymt hlutverki sínu sem þjónar þeirra stétta sem verst eru launaðar í þessu samfélagi okkar (að Ögmundi undanskildum). Sem þjónar þeirra sem vart teljast með stéttum að mati auðvaldsins og þeirra nýríku sem bíða sífellt gróðans. Það er ekki nóg að vera endalaust að þvarga um virkjanir og mengun á meðan að fólk á hvorki til hnífs né skeiðar, á meðan að geðfatlaðir eiga vart húsaskjól, á meðan að spilafíklar hafa í fá hús að venda, á meðan að alkahólistar horfa örvæntingafullir á fagaðila þrasa um hæfi hvers annnars, á meðan að ungar stúlkur ganga kaupum og sölum á götum borgarinnar. Við sem erum í VG þurfum að staldra við nú þegar að nálgast kosningar og þó fyrr hefði verið - það er fátækt á Íslandi og böl af öllum sortum, það er það sem fyrst þarf að laga. Segiði mér svo af virkjunum og grænum túnum. Það er verkalýðshreyfingin sem getur í öllum ofangreindum efnum, og það er verkalýðshreyfingin sem skal - enda erum við öll þaðan sprottin.
Guðmundur Br.

Fréttabréf