Fara í efni

FJÁRMUNUM VERÐI RÁÐSTAFAÐ MEÐ SKYNSAMLEGUM HÆTTI

Ég var spurður um daginn hvað ég kysi. Án þess að vita nákvæmlega hvaða kosningar eða kosti væri átt við svaraði ég hátt og skýrt “vinstri”. Uppi varð fótur og fit og ég spurður hvort ég vildi semsagt borga hærri skatta. Ég svaraði viðstöðulaust, “já!” Þá sló þögn um sig á kaffistofunni og starað var á mig stórum augum. Ég sagðist vilja að tekjum mínum væri ráðstafað fyrir mig á sem bestan hátt fyrir mig og alla. Þá var lagt upp fyrir mig að með þessu teldi ég mig ekki vita hvað væri sjálfum mér fyrir bestu. Þá kom rúsínan í vinstri pylsuendanum. “Jú jú” sagði ég, það er mér fyrir bestu að láta hópa menntaðra manna velja fyrir mig hvað er mér fyrir bestu, því ekki get ég vitað allt, það væri óhagkvæmt að allir þyrftu að vita allt, þannig að það er mér fyrir bestu að láta hópa menntaðra manna velja fyrir mig! Þá þarf ég ekki að eyða orku í að afla vitneskju um svo mikið, svo mikið sem einn maður getur ekki fullnumað sig í. Vísindamenn nota sér skráða vitneskju og vísindi aldanna, eitthvað sem ég sjálfur get ekki orðið mér útum því ég eyði tímanum í að komast nær því að vita allt um það sem ég vinn við og er hálfgerður vísindamaður í. Þá er sagt að vísindi byggist “einungis” á bestu ágiskun. Já, það dugar fyrir mig og gott betur, því besta ágiskun menntaðs manns, manns sem veit meira en ég um málið, er betri en mín besta ágiskun. Þetta á við um allt sem er hægt að vita fyrir víst. Vísindin geta sannað að reykingar eru ekki góðar fyrir mig. Vísindin geta sannað að ótakmarkað framboð á áfengi er ekki gott fyrir mig. Vísindin geta sannað að það er margt vont fyrir mig, sem að ég veit ekki einu sinni að sé slæmt fyrir mig, af því ég hef ekki menntun í öllu sem hægt er að vita fyrir víst. Að velja eftir smekk er ekki það sama og það að þurfa velja sér eitthvað eftir því hvað sé manni fyrir bestu. Þannig að ekki er átt við að það þurfi menntaða menn til að velja t.a.m. hverslags lista maður skuli njóta. En allar takmarkanir á framboði alls sem vísindin segja vont fyrir mig, er gott fyrir mig. Ég get einungis talað fyrir sjálfan mig og sagt að ég er á mörkum þess að ráða við það frelsi sem fylgir okkar vestræna frelsissamfélagi. Ég held að þetta eigi við um all marga, hugsanlega mjög marga,. Ef ekki hefðu verið teknir af mér skattar til að leggja nýjan veg fyrir Fljótsheiði, þá hefði ég haft meira milli handanna. Þeim peningum hefði ég etv. varið í að kaupa bíl með tveimur glasahöldurum. Ég á bíl með einum glasahaldara. Menntaðir menn tóku glasahaldarann af mér og byggðu veg sem sparar þjóðinni peninga á endanum og veitir mér sjálfum meiri munað en glasahaldarinn. Ég hefði bara ekki vitað betur ef skatturinn hefði ekki verið tekinn af mér, ég hefði fengið mér annan glasahaldara. Þetta sé ég eftir á. Gott er að eiga gott “common sense” í öllu þessu frelsi. Verst hvað þetta sense er ekki svo common.
K.I.P