Fara í efni

TALAÐ AF VANÞEKKINGU UM LYFJAMÁL

Sæll Ögmundur Enn og aftur stígur þú fram á völlin og gagnrýnir hvað lyf eru dýr hér á landi. Það vekur furðu mína af hve mikilli vanþekkingu þú talar um málið. Lyfjanefnd skammtar álagningu á lyf í heildsölu. Veistu hvað sú álagning er há? Þetta er strangt eftirlit og frumlyfjainnflytjendur eru búnir að lækka verð til samræmis við verð í Danmörku. Samt er markaðurinn á Íslandi á stærð við Aarhus, lyfjaverð í Danmörku er það lægsta á norðurlöndum og mun hærri flutningskostnaður er hér. Hér er kostnaður mun hærri á lyfjaeiningu vegna skráningargjalda og þýðingarkostnaðar. Á sama tíma er 24,5% virðisaukaskattur á lyf og ekkert eftirlit með verðmyndun í smásölu sem er á hendi 2-3 fyrirtækja og innflytjendur samheitalyfja fá að ráða sér sjálfir. Samhliðainnflutningur þarf ekki að lúta sama verðstrúktúr og þeir sem flytja inn frá framleiðendum! 
Ég mæli með að þú kynnir þér málin áður en þú ert með yfirlýsingar fyrir alþjóð, það gerir þig trúverðugri. Sannleikurinn er sagna bestur. Ég skora á þig að svara eftirfarandi spurningum. 1. Er eðlilegt að ríkið leggi 24,5% virðisaukaskatt á lyf? 2. Ef þú ert ekki sammála því munt þú þá koma fram með tillögu til lækkunar? 3. Munt þú vinna að því að einokun tveggja smásölukeðja í lyfjasölu verði skoðuð og að t.d. samskonar verðsstýringu verði komið á og nú er á innflutningi frumlyfja þ.e. að aðeins verði leyfð 7-13% álagning á lyf í smásölu eins og í heildsölu? eða að álagning í smásölu verði ákveðin af lyfjaverðlagsnefnd eins og er gert fyrir heildsölurnar. 4. Munt þú styðja að samhliðainnflutningur lyfja lúti sömu reglum um verðmyndun, upprunavottun og rekjanleika eins og innflutningur frumlyfja frá umboðsaðilum? 5.Munt þú styðja að leyfisgjöld verði lækkuð og að S merk lyf þurfi ekki að lúta sömu ströngu skilyrðum og lyf á endursölumarkaði varðandi þýðingu ofl. til að ná niður kostnaði? 6. Munt þú beita þér fyrir því að samheitalyf verði á sama verði hér og í Danmörku eins og gert hefur verið varðandi frumlyf? 7. Hefur þú skoðað stærðarmuninn á lyfjamarkaði hér og í Danmörku þar sem allt Ísland er álíka mikill markaður og meðalborg í Danmörku eins og Aarhus sem áður segir, en við erum með mun meiri flutningskostnað og dýrara utanumhald en samt er nú verið að bjóða lyf í heildsölu frá innflytjendum frumlyfja á sambærilegu verði og í Danmörku! Allt þetta hef ég fundið út með því að kynna mér málin. Ég flyt ekki inn lyf, en ég þarf reglulega að nota lyf. Ég met málflutning þinn varðandi mörg mál en þegar kemur að lyfjamálum finnst mér þú vera að hengja bakara fyrir smið, tala óljóst og alhæfa. Gerðu skýrari grein fyrir skoðunum þínum! Þú ert sagður vera vera málsvari fólksins..og ég er í hópi þessa fólks og bið um skýr svör, helst hér á þessari síðu. Kveðja,
Sigurður Sigurðarson

Þakka þér  fyrir bréfið Sigurður. Ég mun síðar reyna að svara spurningum þínum en ekki hef ég svör á reiðum höndum við þeim öllum. Varðandi yfirlýsingar mínar um lyfjamálin hafa þær tengst tvennu: Annars vegar gagnrýni á óeðlilega verðmyndun í dreifingu á lyfjum þar sem tvær keðjur hafa náð undir sig smásölumarkaðnum og einnig skipt með sér útboðs"markaði" fyrir opinbera aðila. Hins vegar var ég með yfirlýsingar í tengslum við kröfu um lækkun virðsiaukaskatts á lyf nú fyrir þingfrestun. Ástæðan var fyrst og fremst sú að tillaga þessa efnis barst deginum áður en til stóð að ganga frá skattafrumvarpinu. Slíkt eru ófær vinnubrögð og vildi ég að málið yrði skoðað betur. Varðandi alhæfingarnar þá tek ég undir méð þér að þar þurfa menn - og vissulega ég sjálfur - að gæta sín, bæði varðandi það að greina á milli, annars vegar framleiðslu ( og þá einnig á milli frumlyfja og samheitalyfja), og hins vegar dreifingu. Ég mun fjalla rækilegar um þetta mál síðar.
Kveðja,
Ögmundur