Fara í efni

SIGURSVEIT SEND Í KRAGANN

Nú hefur verið greint frá því hvaða tillögur kjörnefnd VG í þremur kjördæmum gerir til kjördæmisráða og aðalfunda. Auðvitað geta þessir aðilar breytt niðurstöðunni en tillagan er níðsterk og fær vonandi að standa. Það sem vekur mesta athygli allra - einnig fjölmiðla sem sjaldan sjá það sem skiptir máli - er sú ákvörðun kjörnefndar að gera tillögur um Ögmund Jónasson í efsta sæti VG í Suðvesturkjördæmi. Ástæðan fyrir áhuga fjölmiðla og annarra er reyndar einföld, sú  að VG hefur verið veik í  þessu byggðarlagi. Þó  VG-fólk segi að allt Reykjavíkursvæðið sé eins þá er það ekki rétt, því hagsmunirnir eru mismunandi í byggðarlögunum í Suðvesturkjördæminu. Þar eru sveitarfélög sem hafa allt aðra stöðu en risinn Reykjavík í raun hefur. Það er mikil fórn fyrir VG-menn í Reykjavík að missa  Ögmund úr  Reykjavík en hann er ekki langt undan og ákvörðunin um að bjóða hann fram í sv-kjördæmi getur orðið upphafið á sigurför.

Í nokkrum skoðanakönnunum að undanförnu hefur VG verið lægra í Sv-kjördæmi en í Reykjavíkurkjördæmunum; 14 % í SV en 21 % í R. Hverjar ætli að séu ástæðurnar fyrir því?   Það skyldi þó ekki stafa af því að það hefur verið erfitt fyrir VG að gera sig sýnileg í kjördæminu. Það tókst þó í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Kópvogi en eitt eru bæjarmál en annað  landsmál.  Það hefur enginn einstaklingur sést sérstaklega frá VG í öllu SV-kjördæminu. Fyrr en núna að Ögmundur sést. Það eitt út af fyrir sig á að geta skilað verulega auknu fylgi frá því sem hefur verið í könnunum. Þá er það greinilegt að þeir sem eru með Ögmundi geta sótt inn á nýjan kjósendaakur, til dæmis Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem verður að teljast með alsterkustu frambjóðendunum í vor. Þá er Gestur Hafnfirðingur Svavarsson væntanlega eini frambjóðandinn á listum vorsins í kjördæminu sem sameinar það að vera á móti álversstækkun og að búa í Hafnarfirði.  Mireya Samper hlýtur að hafa mikið aðdráttarafl í Kópavogi. Og Andrea Ólafsdóttir er þekktur femínisti og baráttukona í umhverfismálum, sem hefur vakið mikla almenna athygli. Það er því margt sem bendir til þess að það sé sigursveit sem VG sendir inn í sv - kjördæmið undir forystu Ögmundar Jónassonar. Sigurði kæmi ekki á óvart þó útkoman í Suðvestur-kjördæmi í vor yrði eins góð fyrir VG í því kjördæmi og í Reykjavíkurkjördæmunum. Það hlyti að teljast umtalsverður sigur.

Framboð fimmmenninganna með Ögmundi í kraganum er því sterkur leikur; en hann hefur líka pólitískt innihald: Þar er VG að tefla fram sterkasta manni forvals síns á dögunum til þess að sækja þangað sem er kannski erfiðast að sækja, en þar sem eru jafnframt miklir nýjir sigurmöguleikar. Þannig gætu úrslitin í SV-kjördæmi komið á óvart miðað við það sem nú er spáð - rétt eins og fréttin um að kjörnefndin gerði tillögu um að Ögmundur leiddi listann í því kjördæmi. 
Sigurður Bjarnason