ÞAÐ ÞARF NÝJA HAGSTJÓRN !

Það er ótrúleg ósvífni eða þekkingarleysi að halda því fram að það eitt að skipta út krónunni muni lækka matvælaverð. Það er  fjarstæða. Það að skipta úr krónu í einhverja aðra einingu hefur eitt út af fyrir sig engin áhrif frekar en það hafi áhrif á hitastigið að breyta úr Celcius i Fahrenheit. Það breytir nákvæmlega engu. Það er því óábyrg blekkingarstarfsemi að halda öðru fram. Og vandinn við að breyta úr krónu í eitthvað annað stafar ekki af því að fólk hafi tilfinningatengsl við krónuna eins og einhver orðaði það! Auðvitað ekki. Vandinn við að breyta í evru úr krónu stafar aðallega af því að þar með værum við að afsala þjóðinni gengisskráningarvaldinu. Það breytir engu segir kannski einhver vegna  þess að við notum  þetta vald aldrei lengur. En það eru ekki rök; það er ámóta og að segja það að afnema eigi neitunarvald forseta Íslands vegna þess að það var ekki notað í 60 ár. Gengisskráningarvaldið er mikilvægt vegna þess að íslenskt efnahagslíf er sérstakt og ef erfiðleikar ganga yfir þá verðum við að hafa þetta tæki. Segjum að náttúruhamfarir valdi hruni fiskistofnanna, þá verður ríkisstjórnin að hafa möguleika á því að nota gengisskráninguna til að rétta við þjóðarskútuna.  Það er því fjarstæða að henda gengisskráningarvaldinu - en það skiptir engu máli eitt út af fyrir sig hvað myntin heitir að öðru leyti en því að króna er fallegra orð en evra.

Og hvað segja nágrannar okkar? Norðmenn vilja hvorki evru né ESB. Svíar hafa nýlega hafnað evru í þjóðaratkvæðagreiðslu en eru samt í ESB, Danir vilja ekki evru en eru samt í ESB.

Semsé: Það hafa engin rök komið fram fyrir því að það sé betra fyrir okkur að taka upp evru.

Hitt er ljóst og allt annað mál að íslenska hagkerfið er lítið og það er flókið að taka við áhrifum heimsvædds hagkerfis á svo litla mynteiningu. En það er verkefni til að takast á við; það á að gera með góðri hagstjórn. Góð hagstjórn er ekki það að lækka skatta á þenslutímum. Ekki heldur það að efna til stóriðjukapphlaups um land allt á sama tíma. Háu vextirnir eru í raun ekki heldur Seðlabankanum að kenna; þeir eru niðurstaða vitlausrar hagstjórnar sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Til að halda niðri verðlagi - líka á matvælum - þarf trausta hagstjórn, nýja hagstjórn. Það er aðalatriðið.

Sigurður Bjarnason

Fréttabréf