Fara í efni

FAGLEG SJÓNARMIÐ RÁÐI Á RÚV

Heill og sæll!
Vildi rétt skýra betur sjónarmið mitt í Kastljósinu um RÚV-frumvarpið. Ég tel alveg augljóst að það, að færa mannaráðningar frá Útvarpsráði alfarið til útvarpsstjóra, er til þess fallið að draga úr flokkspólitískum ráðningum, þótt sjálfsagt verði þær ekki úr sögunni. Fer vitanlega eftir því hver útvarpsstjórinn er, en nú mun hann a.m.k. hafa möguleika til að láta sín faglegu sjónarmið ráða ein, sem hann hefur ekki nú. Hitt er svo annað hvort þetta sé stórkostlegt framfaraskref. Án þess að ég hafi horft aftur á þáttinn held ég að ég megi fullyrða að þú leggir mér orð í munn þegar þú segir að ég hafi sagst sammála þessari breytingu eða hrósað henni. Ég benti bara á að menn hefðu gagnrýnt afskipti útvarpsráðs og nú væru þau úr sögunni. Ég er hins vegar hreint ekki sannfærður um að það sé einhver sérstök framför, enda finnst mér rök hníga að því að pólitískir fulltrúar hljóti að eiga að hafa áhrif, a.m.k. á dagskrána, ef menn vilja yfirleitt hafa ríkisrekinn fjölmiðil. Með bestu kveðju,
Ólafur Teitur
ps. Ég horfði mikið og lengi á málþófið í sjónvarpinu og átti í mesta basli með að átta mig á því hverju menn voru eiginlega að mótmæla. Einna helst að það kæmi skýrt fram hjá þér, þ.e. varðandi réttindi starfsmanna.

Komdu heill og sæll.
Þakka þér fyrir bréfið. Ef ég hef misskilið þig þá þykir mér gott að þú skulir leiðrétta það. Ekki var það ætlan mín að afbaka skoðanir þínar. Hins vegar er það misskilningur af þinni hálfu og margra annarra, að Útvarpsráð hafi ráðið mannaráðningum á RÚV. Útvarpsráð hafði og hefur einvörðungu umsagnarrétt um ráðningar og iðulega hefur verið ráðið starfsfólk þvert á ráðleggingu Útvarpsráðs. Nú hins vegar verður útvarpsstjóri einráður um ráðningar og það sem verra er, hann getur rekið menn að vild einnig. Einræði á fjölmiðli er fullkomlega fráleitt. Í ofanálag verður einvaldur RÚV sjálfur ráðinn, og eftir atvikum einnig, rekinn af Útvarpsráði, sem skipað verður samkvæmt meirihlutavaldi í ríkisstjórn hverju sinni! En ég ítreka þakkir fyrir bréf þitt. Ég veit að þú ert heill í þínum skoðunum og þær virði ég þótt ekki sé ég þér sammála.
Ögmundur

Greinin sem Ólafur Teitur vitnar til er  HÉR