Fara í efni

SPURT UM KJÖRIN

Sæll Ögmundur. Þetta er glæsileg síða sem þú heldur hér úti. Ég er ekki skoðanabróðir þinn í Pólitík, en les þessa síðu reglulega. Ég var að skoða glæsilega heimasíðu VG, þar kemur fram eftirfarandi um þig "Hlunnindi Alþingi greiðir fyrir símakostnað og áskrift dagblaða. Auk þess fæ ég greiddan kostnað, sem tengist þinginu og nam hann 190 þúsund krónum á sl. ári. Hér vegur þungt kostnaður við heimasíðu mína en einnig kostnaður vegna skjalaþýðinga". Mín spurning til þín er eftirfarandi: Borgar Alþingi fyrir þig heimasíðugerð ? Dagblaða áskrift ? Hvernig skiptist sá kostnaður ? Það var fróðlegt að sjá að þú skulir fá samtals um 41.500 kr á mánuði í fastan ferðakostnað til að reika um kjördæmið Reykjavík Suður, ertu með einhverjar greiðslur á mánuði í óreglulegan ferðakostnað innan kjördæmisins ? Einnig langar mig til að vita þar sem að þú ert með samtals um 660.000 í laun á mánuði, hvað fékkstu í ferðadagpeninga á síðasta ári ? Hvað fórstu margar utanlandsferðir á "annara manna" vegum s.s Alþingis/félagasamtaka ? Ég veit að þetta er mikið af spurningum, en það væri afar fróðlegt ef þú gætir gefið þér smá tíma til að svara fróðleiksfúsum kjósanda.
Með von um svör
Hjálmar Helgason

Sæll Hjálmar.
Þakka þér góð orð um síðuna mína. Upplýsingar um kjör mín er að finna bæði á þessari síðu og einnig á síðu VG. Þú spyrð um nokkur atriði varðandi kjör mín, vilt til dæmis fá að vita hvort ég fái kostnað vegna heimasíðu minnar greiddan. Svarið er játandi. Þingmenn eiga kost á því að fá setta upp heimasíðu og rekna af þinginu eða millifærða greiðslu til fyrirtækis sem annast slíkt. Ég tók síðari kostinn. Þannig hagar til að þingmenn geta fengið greidda fasta upphæð á mánuði sem nemur 58.840 kr. vegna starfskostnaðar. Ég hef ekki þegið þessar greiðslur en hef á hinn bóginn reitt fram reikninga vegna starfskostnaðar. Á síðasta ári var slíkur starfskostnaður minn einvörðungu vegna heimasíðunnar, og þá fyrst og fremst vegna lénsins og þjónustu við það. Þá spyrð þú um dagblaðaáskrift. Nú er það svo að Fréttablaðið og Blaðið fáum við eins og aðrir landsmenn frítt en Morgunblaðið fáum við okkur að kostnaðarlausu. Mánaðaráskrift af Mogga er 2650 kr. Áskrift af RÚV greiða þingmenn sjálfir. Þá spyrð þú um ferðakostnað minn. Á síðasta ári nam hann alls 651.554 kr. Ég sit í ýmsum fjölþjóðlegum nefndum og ráðum, gegni t.d.  formennsku í norrænum samtökum opinberra starfsmanna, sit í stjórn heimssamtaka launafólks í almannaþjónustu (PSI) og þarf því oft að fara á fundi til annarra landa.  Ég vona að þú sért ekki að gera því skóna að líta beri á þessa upphæð sem hér er nefnd sem tekjur því þarna kemur kostnaður á móti, hótel, fæði og annar tilkostnaður. Varðandi greiddan ferðakostnað innan kjördæmisins fyrir utan þá föstu upphæð sem þú nefnir þá er ekki um slíkt að ræða. Ég vona að þetta svari spurningum þínum Hjálmar.
Með kveðju,
Ögmundur