Fara í efni

ÞINGMAÐURINN Á BAUNINNI

Er ekki hægt að setja takmörk fyrir því, Ögmundur, hversu viðkvæmir menn mega sitja á alþingi? Þeir sem hafa alist upp á Hvalfjarðarströnd vita að þar hefur oft þurft að bölva upp í veðrið til þess að komast fyrir fé í stórhríðum. Þessi arfur hefur fylgt okkur alla tíð og hefur aldrei þótt vandamál að tvenna og jafnvel þrenna ef þannig stendur á. Sumir  fara reyndar aldrei með blótsyrði en aðrir stundum og fer það allt eftir smekk. Í fyrri tíð bjó maður í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd sem orti fast á hið illa, líka andskotann að ekki sé minnst á djöfulinn sem sagður var búa í helvíti. Nú hafa þau heimilsföng kannski breyst en þessi maður var Hallgrímur Pétursson. Hann  var til upprifjunar skáld en hann var aldrei varaþingmaður Framsóknarflokksins.

 

Þess vegna er þetta rifjað upp hér að  varaþingmaður Framsóknarflokksins Guðjón Ólafur Jónsson er svo viðkæmur að hann kvartar við forseta alþingis ef hann heyrir blótsyrði í þingsal, ekki í ræðustól, heldur í þingsal. Þá fer að verða vandlifað fyrir þingmenn ef þeir mega ekki nota þau orð sem þeim sýnist utan ræðustóls. Og þó sérstakleg vandlifað fyrir forseta; á forseti að setja blótmæli á menn? Eða kannski annan hér ónefndan mæli, en heyrst hefur að þingmenn hafi stundum, jafnvel þingkonur, farið með blautlegar vísur í hálfum hljóðum í þingsalnum.

 

Nú veit Guðjón Ólafur Jónsson sem er að hann verður ekki kosinn á þing í vor; til  þess er hann of neðarlega á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæminu öðru hvoru. Hann er í öðru sæti. Þess vegna grípur hann til þess ráðs að gerast blót - lögga á alþingismenn. Til að vekja á sér athygli. En það mun ekki duga. Svo margar viðkvæmar sálir eru ekki á kjörskrá í Reykjavík að dugi til að gera hann að þingmanni. Hitt mun kannski rifjast upp síðar á öldinni að einu sinni hafi setið á alþingi einstaklega viðkvæmur varaþingmaður;  hann hafi ekki þolað blótsyrði. Þannig verður hann kannski efni í ævintýri. Eins og  prinsessann á bauninni.

 

Sigurður Bjarnason