UM MUNINN Á ALMANNAHAG OG HAGSMUNUM GOSDRYKKJAFRAMLEIÐENDA

Sæll Ögmundur.
Þakka þér fyrir greinina um fátæktina í Morgunblaðinu á dögunum og fyrir athyglina sem þú hefur vakið á að með breytingu á virðisaukaskattinum sé veruleg hætta á að stuðla verði að frekari óhollustu. Holdarfar Íslendinga er nú þannig að full ástæða er til að vekja athygli á því enda glittir einmitt í holdarfarinu í stórkostlega aukningu heilbrigðisútgjalda í framtíðinni vegna fyrirséðra sjúkdóma. Í rökræðum eru stundum færð fram svo vitlaus sjónarmið að menn verða kjaftstopp. Þess vegna ætla ég ekki að gera að umtalsefni efnislega röksemdir ungs varaformanns Samfylkingarinnar í málinu. Hann á eftir að gera sér betur grein fyrir muninum á almannahag og hagsmunum gosdrykkjaframleiðenda. Ég tók eftir því á Stöð 2 þar sem þið rædduð lækkun sykurskattsins að hann vísaði til þess að Samtök atvinnulífsins og samtök heildsala og smásala styddu Samfylkinguna í að lækka líka sykurskattinn. Auðvitað gera þessi samtök það. Til þess eru þau að berjast fyrir hagsmunum fyrirtækjanna, en það hefur ekkert með málið að gera efnislega heldur hagsmunalega. Á því er verulegur munur. Offita, fyrirsjáanleg vaxandi heibrigðisútgjöld, tannskemmdir, þetta er ekki vandi fyrirtækja og greinilega ekki vandi Samfylkingarinnar. Þetta gæti hins vegar verið vandi einhverra sem kosið hafa Samfylkinguna. Ég man ekki betur en að fólk sem er með varaformanninum í þingflokki hafi verið að berjast gegn auglýsingum sem beinast gegn börnum til að vernda þau, gegn ruslfæði og til dæmis fyrir hollum mat í skólum landsins til að stýra neyslu þeirra. Kannski er sjoppufæðið orði jafngilt því sem hollt er að mati Samfylkingarinnar. Mér finnst að það þurfi að draga varaformann Samfylkingarinnar á flot í fleiri málum og fá hann til að tjá sig um fleiri mál en sykur kjósendum til upplýsingar.
Kv.
Ólína

Þakka þér fyrir bréfið Ólína. Greining þín á hinum hagsmunatengdu þáttum er að mínu mati mjög góð. Annars vegar eru það hagsmunir sölumanna og hins vegar neytenda, einkum barna og unglinga en ofan í þau virðast stjórnvöld staðráðin að verðstýra óhollustunni. Ein ábending, umræðan í gærkvöldi fór fram í Kastljósi RÚV (bráðum ohf) en ekki Stöð 2. Þetta vill renna saman.
Kv.
Ögmundur

Fréttabréf