ÁHUGAVERÐ HEIMSÓKN

Blessaður og sæll.
Þú mátt endilega láta fólk vita af þessu: ŽIŽEK í Reykjavík. Listaháskóli Íslands kynnir stórviðburð fyrir áhugafólk um listir, stjórnmál og hugvísindi: Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek er væntanlegur til landsins og heldur fyrirlestur, föstudaginn 30. mars. Can Art still be Subversive? er yfirskrift fyrirlestrarins, sem verður fluttur í sal 132 í Öskju, kl. 16:30. Þá heldur Žižek fyrirlestur kl. 11 að morgni sama dags, við Háskólann á Bifröst: Tolerance as Ideology. Žižek er prófessor við Háskólann í Ljubljana, en hefur einkum varið síðustu 15 árum í ritstörf og fyrirlestrahald um allan heim. Á forsendum Hegels, annars vegar, og lacanískrar sálgreiningar, hins vegar, leggst hann til greiningar á samtímanum, í afdráttarlausum ritum og greinum. Meðal síðustu titla ber að nefna Welcome to the Desert of the Real, sem hann gaf út eftir árásirnar á New York 11. september 2001 og Iraq: The Broken Kettle, sem var skrifuð í kjölfar innrásarinnar í Írak. Leiðarspurning þessara bóka, ásamt viðameiri heimspekiritum hans, á við The Ticklish Subject og The Parallax View má segja að sé hvernig hugmyndafræði virki í samtímanum. Ritið The Plague of Fantasies, eftir Žižek, er væntanlegt í íslenskri þýðingu haustið 2007, í lærdómsritaröð Hins íslenska bókmenntafélags, en í tilefni heimsóknarinnar gefur Bókmenntafélagið út sýnishorn af bókinni og dreifir meðal gesta á fyrirlestri Listaháskólans. Bækur heimspekingsins eru nú fáanlegar í Bóksölu Stúdenta og Eymundsson. Breski leikstjórinn Sophie Fiennes kemur til landsins, í boði Reykjavík Documentary Workshop, og sýnir myndina The Perverts Guide to Cinema, sem hún leikstýrði í samstarfi við Žižek, á grunni kvikmyndagreiningar hans, í Norræna húsinu, fimmtudaginn 29. mars kl. 19:00, af tilefninu. Þá heldur leikstjórinn master-class í Öskjusalnum laugardaginn 1. apríl kl. 15:00. Til fjölmiðla: Frekari upplýsingar má fá hjá Hauki Má Helgasyni, netfang haukurmar@lhi.is eða í síma 662-1962.
Haukur Már Helgason

Fréttabréf