Fara í efni

EKKI HÆGT AÐ VERÐSTÝRA HEGÐUN

Gaman væri við tækifæri að fá að sjá rannsóknir Lýðheilsustofnunar á verðteygni á Coca Cola, sérstaklega því sem lýtur að unglingum. Hvernig er hægt að rannsaka slíkt með leyfi? Þetta er yfirleitt álíka vísindalegt og töfralækningar í Swasilandi, (staðkvæmdarvörur, verðteygni, bull og vitleysa). Hver getur rannsakað þetta af viti? Ég fylgdist með þessari umræðu í Danmörku, þá vildi SF endilega setja krónu á kókið og gera aumingjana aðeins fátækari. Hagfræðiritgerð frá Bifröst bendir á að bæta megi kjör fátækra meira með því að lækka verð á tóbaki verulega heldur en með almennri lækkun á virðausauka. Svona umræða endar aldrei, en á meðan borða vansvefta uppeldislausir unglingar pizzu, drekka kók og horfa á videó, alveg sama hversu mikið verðið er hækkað. Þetta eru bara pyntingar úr fjarska. Það er ekki hægt að stjórna þjóðfélagi með því að "fínstilla gjöld og skatta". Þetta er kallað micromanagement og á meira skylt með decadent sjálfsblekkingu heldur en umbótum. New Labour eru snillingar í þessu. Hegðunarvandamál aukast stöðugt og þá eru settar á Anti Social Behavioural Orders eða ASBO´s til að stýra unglingunum og setja þá í hinar og þessar refsingar. Þá kemur í ljós að yfir 40% allra þeirra sem fá slíkar sendingar frá hinu opinbera eru unglingar með ýmis konar námsörðugleika, osfrv. Það vantar auðvitað ekki fjarstýrðar sektir heldur umönnun. Þetta er einsog hvert annað svell, þessi míkróstjórnun, allt í einu er ekki hægt að stöðva sig. Hún byrjar með sköttum, hækkuðum stöðumælagjöldum, hraðasektum (nú segir lögreglan í UK að aðeins 13% alvarlegra slysa megi rekja til hraðaksturs, mestanpart er þetta lyfjanotkun, svefnleysi, áfengisnotkun og skortur á einbeitingu) og endar með því að hækka kókið um tíkall. skattar hætta að vera tekjuöflun til samfélagsþarfa og verða refsingar til þess að stjórna lýðnum. Lögin hætta að verða lög og verða "skilaboð". Lögreglan hættir að elta glæpamenn og breytist í innheimtustofnun á sektum sem settar eru á venjulegt fólk. Munum að reykingar minnkuðu vegna áróðurs og löngu áður en bönn gengu í gildi.
mkv
BJ

Þakka kærlega bréfið. Ekki kaupi ég þó þessa röksemdafærslu þótt vissulega eigi fyrst og fremst að hafa áhrif á börn og unglinga með umönnun og uppeldi en ekki verðstýringu. Undir það tek ég. En hvers vegna skyldu framleiðendur gosdrykkja hafa lagt slíkt ofurkapp á að fá lækkun á virðisauka og afnumin að auki vörugjöldin á kók og alla hina gosdrykkina? Það var vegna þess að fyrirsjáanlegt þótti að þar með myndi salan stóraukast. Það gefur auga leið. Framleiðendur og sölumenn voru miður sín vegna andstöðu Lýðheilsustöðvar við skattaívilnanirnar. Lýðheislustöð benti réttilega á að börn og unglingar væru farin að þamba gosdrykki í hrikalegu magni, margir svo lítrum skipti á degi hverjum með alvarlegum afleiðingum fyrir tannheilsu, holdarfar, einbeitingu og líðan almennt. Þótt verðstýring hefði aðeins áhrif á lítinn hóp þá væri hún þess virði að mínu mati.
Kv.
Ögmundur