Fara í efni

HRIKALEGAR HÓTANIR

Margt er gott í ályktunum landsfundar Sjálfstæðisflokksins, einnig um  velferðarmál, en þar birtast líka hrikalegar hótanir um grundvallarbreytingar á velferðarkerfinu.  Dæmi:
1.  "Landsfundurinn vill nýta kosti fjölbreyttra rekstrarforma á sem flestum sviðum og tryggja þannig hagkvæma nýtingu opinbers fjármagns." Hér er semsé lögð áhersla á einkarekstur í heilbrigðiskerfinu; tvöfalt kerfi.
2. "Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda almannatryggingum og að heilbrigðisþjónusta sé að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum." Á Norðurlöndunum hinum er heilbrigðisþjónusta ókeypis. Ég hef séð að VG vill fella niður sjúklingagjöld. Þannig á það að vera.
 3.  "Fundurinn telur að breyta þurfi kerfi sjúkratrygginga á þann veg að ljóst sé að um raunverulegt tryggingakerfi sé að ræða þar sem menn njóta skilgreindra réttinda til þjónustu sem þeir hafa greitt fyrir með sérstökum iðgjöldum. Skilgreina þarf lágmarkssjúkratryggingu svo að einstaklingarnir viti hver trygging þeirra er. " Semsé: Menn kaupi sér réttindi eins og mismunandi tryggingar á bíl; þeir sem eru kaskótryggðir fá allt, þeir  sem hafa ekki efni á því fá sumt gert en ekki annað.
4. "Endurskoða þarf fjármögnun heilbrigðisþjónustu og taka upp aðferðir þar sem þess er gætt að fjárveitingar séu í samræmi við þarfir, umfang og eðli þjónustunnar á hverjum tíma. " Hvað er þetta annað en að opna fyrir einkafjármagn sem getur auðvitað ekki tekið þátt í velferðarkerfinu nema það skili gróða.?
5. "Bið eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu er ekki sæmandi í velferðarþjóðfélagi okkar. Æskilegt er að settar verði reglur um hámarksbið og að skilgreindur verði réttur sjúkratryggðra til að leita annað eftir þjónustu. " Það er nefnilega það: Þeir sem þurfa að bíða en eru ríkir þeir geti keypt sig framar á biðlistunum,
6. "Lagt er til að sjálfstæðum aðilum verði í auknum mæli gefið færi á að taka að sér verkefni á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu og að kostir einstaklingsframtaks verði nýttir á þessu sviði. Má þar t.d. nefna góða reynslu af samningum um einkarekna heilsugæslu. Áhersla er lögð á fjölbreytt framboð þjónustu, gott aðgengi að upplýsingum um hana og að fagstéttum verði ekki mismunað hvað varðar þjónustusamninga við Tryggingastofnun ríkisins. "  Hér þarf ekki frekari vitna við: Sjálfstæðir aðilar, það er einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, eiga að geta rekið tiltekna þætti þjónustunnar.

Þarf frekari vitna við? Er ekki ástæða til að vara þjóðina við þessum hryllingi áður en  Sjálfstæðisflokkurinn fer að mælast í 50 % atkvæða?

Sigurður Bjarnason