Fara í efni

BLEKKINGAR UM EFTIRLAUNAFRUMVARPIÐ AFÞAKKAÐAR

Sæll Ögmundur.
Umræðu um eftirlaunahneykslið mun ekki slota í bráð - og ég vona sannarlega að Vinstrihreyfingin – grænt framboð kveði snimmendis upp úr með afstöðu sína í því máli þannig að eftir verði tekið – fyrir kosningar: Er VG reiðubúin að afnema eftirlaunalögin frá í desember 2003 eða breyta þeim þannig að alþingismenn og ráðherrar búi við sömu lífeyrisréttindi og aðrir opinberir starfsmenn? Ég bíð með öðrum orðum spenntur eftir svari þínu við grein minni í mbl. á laugardaginn var.
Ástæða þess að ég skrifa þér nú eru hins vegar orð Jóhönnu Sigurðardóttur í Blaðinu í dag, 8. maí. Þar er hún enn að reyna að blekkja kjósendur með því að láta líta út fyrir að ágreiningurinn um eftirlaunahneykslið snúist fyrst og fremst um það, að þingmenn og ráðherrar geti þegið eftirlaun jafnframt því að vera í fullu starfi. Það er rangt. Sú handvömm uppgötvaðist ekki fyrr en töluvert eftir að lögin voru samþykkt. Undirhyggja Jóhönnu – og Margrétar Frímannsdóttur – er sú að afnema þetta eina atriði og láta síðan alla svívirðuna standa. Helst reyndar að þvæla málið sem mest þannig að ekkert verði úr neinu. Um þetta reit ég grein í mbl. á sínum tíma. Sjá: "http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1080247"
Það gerði Valgerður Bjarnadóttir líka í snöfurmannlegri úttekt á eftirlaunahneykslinu. Sjá: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1112177
Samfylkingin er búin að segja - með óþarflega loðnu orðalagi – að færa eigi lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra nær því sem almennt gerist. Ef það á að vera að hætti Jóhönnu Sigurðardóttur og Margrétar Frímannsdóttur, þá er það enskis virði. Þá er verið að blekkja kjósendur.
Ögmundur, ég vona að VG geri betur. Ekki segja mér að þú viljir afnema þessi svívirðilegu eftirlaunalög, ég veit það vel. Segðu mér hvort flokkurinn – Vinstrihreyfingin – grænt framboð – er reiðubúinn til þess.
Kveðja,
Hjörtur Hjartarson