Fara í efni

HVER ER AFSTAÐAN TIL LÍFEYRISFORRÉTTINDANNA?

Sæll Ögmundur.
Ég vildi vekja athygli á yfirlýsingu frá Þjóðarhreyfingunni, því það er beðið eftir afstöðu VG til afnáms lífeyrisforréttinda "æðstu ráðamanna" sem voru lögfest í desember 2003: YFIRLÝSING UM AFNÁM LÍFEYRISFORRÉTTINDA Þjóðarhreyfingin – með lýðræði fagnar heitstrengingum stjórnmálamanna um afnám lífeyrisforréttinda hæstaréttardómara, ráðherra og alþingismanna. Lagasetningin frá í desember 2003 gengur gegn hugmyndum landsmanna um lýðræði og jafnrétti. Þjóðin býr í grundvallaratriðum við sömu lífeyrisréttindi. Alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar eiga einfaldlega að njóta sömu réttinda og aðrir opinberir starfsmenn. Sú leiðrétting þolir enga bið. Að því fengnu ber að jafna lífeyrisréttindi þannig að fólk á almennum vinnumarkaði njóti ekki lakari réttinda en opinberir starfsmenn gera nú. Yfirlýsingar einstakra frambjóðenda um afnám forréttindanna eru fagnaðarefni en duga ekki einar og sér. Stjórnmálaflokkarnir verða að gera grein fyrir afstöðu sinni. Þjóðarhreyfingin hvetur landsmenn til þess að krefja flokkana um skýr og afdráttarlaus svör í þessum efnum – fyrir kosningar. Reykjavík 24. apríl 2007 Þjóðarhreyfingin – með lýðræði www.thjodarhreyfingin.is
Hjörtur Hjartarson

Heill og sæll Hjörtur. Mín afstaða er skýr. Burt með þessi lög.
Kv.
Ögmundur