Fara í efni

EKKI Í STUÐI

Sæll Ögmundur.
Ég var eins og þú alin upp við að hlusta þegar forseti Íslands talar opinberlega. Fyrst Ásgeir, þá Kristján, Vigdís og nú síðast Ólafur. Á góðum degi endurspegluðu orð allra það sem bærðist með þjóðinni. Allir forsetarnir fluttu misjafnlega góðar ræður. Sumir fluttu jafnvel slakar tölur. Þingsetningarræða forseta Íslands í dag fellur í þann hóp. Mér þótti ræðan fremur yfirborðskennd, fannst hún einkennast um of af frösum, sjálfhverfu og engu var líkara en að höfundurinn hefði kastað til hennar höndunum. Kannske hefur hann ekki verið í stuði. Verst þykir mér þegar forseti bregður sér í biskupsham og líki undirkontórista í kirkjumálaráðuneytinu, svo vitnað sé til Halldórs Laxness, og byrjar að kítta upp í þær rifur samfélagslegar sem þeir sjá sem vilja. Öðru vísi mér áður brá. Um þessar mundir eru til dæmis um það bil fjórar milljónir manna á flækingi um Mið-Austurlönd. Þetta eru Írakar sem flúið hafa stríðsátökin í landi sínu. Átökin sem rekja má til innrásar hinna “viljugu þjóða” í landið. Bera Íslendingar nokkra ábyrgð í þessu sambandi. Þótt hugur forseta hafi verið mjög bundinn útrás og alþjóðamálum allt frá því hann sendi frá sér útflutningsleiðina 1991 þá voru hvorki fátækt né stríð forseta efst í huga í dag. Frasinn forseta að “gera vopnabúr að vísindastöð” var það næsta sem hann komst stríði. Sá frasi er sömu ættar og loforð Samfylkingarinnar um að taka Ísland af lista hinna “viljugu þjóða”. Loforðið var efnt svona: “Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak...”. Ja, skylt er skeggið hökunni. Sama má segja um þann fullkomleika fjölmiðlanna sem forseti lýsir í ræður sinni: “Að auki veitti nú fjölmiðlaflóran öllum flokkum fjölþætt tækifæri til að koma boðskap til skila. Hin margradda umræða í sérhverjum miðli er ótvíræð framför frá fyrri árum þegar flokksmálgögnin þrengdu að og umræðuþættir í ljósvakamiðlum voru fáir.” Á góðum degi hefði í þessu sambandi kannske verið bæði viðeigandi og nauðsynlegt að tala um veikleika fjölmiðlanna og ekki hvernig þeir gegndu þjónustuhlutverki sínu við flokkana. Ekki síst þar sem nú er kannske komið upp ástand sem höfundar gömlu fjölmiðlalaganna, sem forseti neitaði staðfestingar, óttuðust að upp kynni að koma og forseti kallar nú “stakkaskipti fjölmiðlanna”. Það er talað um sættir og sáttahug. Er þetta ekki eins og hver önnur guðsblessun forseta á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðsiflokks og Samfylkingar? Hver er þín skoðun Ögmundur?
Kveðja,
Ólína

Ég þakka þér bréfið Ólína. Ég er sammála þér að hinar miklu meintu sættir í íslensku samfélagi eða í heiminum almennt eru mér ekki sýnilegar. Misskipting fer vaxandi og því fer fjarri að dragi úr hernaðarofbeldi. Íslensk stjórnvöld hafa stutt slíkt ofbeldi. Varðandi meinta stórbætta fjölmiðlun á Íslandi hef ég líka mínar efasemdir. Því miður gætir of mikillar yfirborðsmennsku í íslenskum fjölmiðlum og þá er ég einnig á þeirri skouðun að flokksmiðlarnir gömlu vörpuðu iðulega skarpara ljósi á álitamál samtímans en fjölmiðlarnir gera nú um stundir. Síðan er það eignarhaldið og hið pólitíska vald - hvar liggur það? Á einni hendi.
Ögmundur