Fara í efni

ALLT ER FALT

Sæll.
Saga Íslendinga hefur gengið í bylgjum. Stundum hefur okkur vegnað vel og stundum illa. Stundum höfum við gengið í gegnum niðurlægingartímabil og á öðrum stundum hefur andinn risið hátt. Því miður óttast ég að það skeið sem nú stendur yfir einkennist af meiri niðurlægingu en flest önnur tímaskeið í sögu þjóðarinnar. Ástæðan er ekki sú að okkur vegni illa efnalega. Þvert á móti þá eru efnin nóg nú um stundir -það er að segja þegar á heildina er litið. En allt er líka falt. þar liggur niðurlægingin. Sú kynsló0ð sem nú ræður virðist reiðubúin að selja frá þjóðinni allar eignir hennar. Sú sala er ekki auðveldlega afturkræf. Þú hvetur til þess Ögmundur að við snúum vörn í sókn. Undir það vil ég taka. Nú þarf hver maður sem ekki vill una ranglætinu að láta frá sér heyra og segja þeim stríð á hendur sem ætla sér að stela landinu einsog þú kallar það. Ekki þarf síst að láta þau sem þjóna fyrir altari (svo vitnað sé í pistil þinn) finna til tevatnsins. Þar er ég að tala um ríkisstjórn Íslands.
Grímur