ER VERIÐ AÐ KOMA Á TVÖFÖLDU HEILBRIGÐISKERFI?

Hver er afstaða ykkar í BSRB til þeirra breytinga sem ASÍ og SA eru að semja um varðandi breytingu á rétti til örorkubóta og greiðslna í veikindum? Sjálfur er ég öryrki og finnst ég vera búinn að reyna alveg nóg án þess að þurfa að horfa upp á skerðingar á rétti mínum. Eða til hvers halda menn að boðað sé til þessara breytinga? Til þess að spara peninga að sjálfsögðu.  Ég blæs á að þetta sé gert til nokkurs annars enda lagt upp í leiðangurinn með sparnað í huga. Halda menn að við fylgjumst ekki með? Og hvað segir þú um þá staðhæfingu Öryrkjabandalagsins að verið sé að koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi - alemnnu og einkareknu?
Öryrki

Ekki er ég sammála þér um að upp í þessa för - einsog þú orðar það - sé fyrst og fremst lagt til þess að spara peninga. Þótt hugað sé að sparnaði þá er hugmyndin sú að það verði alls ekki á kostnsað öryrkja. Þvert á móti þá er verið að hverfa frá þeirri hugsun að litið sé á öryrkja sem "afgreidda stærð" sem menn nánast kaupi sig frá með því að borga örorkubætur án þess að leita annarra lausna. Nú skal einmitt það gert og hugað að endurhæfingu af meiri krafti en nokkru sinni fyrr. Það gæti vissulega sparað peninga jafnframt því sem það hjálpaði viðkomandi öryrkja til heilsu. Þetta markmið er göfugt og það styð ég heilshugar.
Hvað framkvæmdina snertir þá skal ég játa að þar hef ég ákveðnar efasemdir sem ég er að melta með mér þessa dagana. Einsog þú víkur að sagðist Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins óttast að verið væri að koma á tvöföldu heilbrigðiskerfi, annars vegar hinu opinbera og hins vegar kerfi sem rekið væri af verkalýðshreyfingunni. Það má ekki gerast. Það má ekki ráðast í breytingar sem á nokkurn hátt grafa undan hinu almenna heilbrigðiskerfi okkar. Hérna eiga menn að fara sér hægt og ekki ráðast í breytingar fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Ekki vil ég einkarekna spítala.
Þú spyrð um afstöðu BSRB. Þar á bæ er verið að skoða málið. Að svo stöddu get ég sagt að menn eru sammála ASÍ varðandi markmið sem áður segir en efasemdir eru uppi um leiðir. Þú munt heyra frá mér nánar um þetta áður en langt um líður.
Kv.
Ögmundur

Fréttabréf