Fara í efni

EKKI TÚLKA UMFRAM ÞAÐ SEM MEINT ER

Af einskærri tilviljun hnaut ég inn á heimasíðuna þína og verð að hrósa henni fyrir skemmtilega myndblöndun og efnisval.
Ég verð þó að gera athugasemdir við túlkun þína á ummælum mínum sem birtust í sjónvarpsfréttum 2. október sl. Í fyrsta lagi segi ég hvergi að fráleitt sé að reisa álver á Suðvesturhorninu. Ég segi að í ljósi þeirrar skerðingar sem varða á þorskkvótanum í sumar og þeim vanda sem steðjar að landsbyggðinni „sé skynsamlegt í stöðunni að einbeita sér að einu álveri og það álver sé álverið á Bakka við Húsavík. Við erum ekkert að slá álverið í Helguvík af". Þessi ummæli á ekki að túlka öðruvísi en skv. orðanna hljóðan þeirra. Ég tek svo fram að ég styð atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum í hvívetna en tel í ljósi þeirrar þenslu sem er á suðvesturhorninu að best sé að forgangsraða framkvæmdunum á þennan hátt. Þar er ég með hagsmuni landsins alls að leiðarljósi.
Í annan stað fullyrðir þú að ég fari með rangt mál. Það er ekki rétt. Ég var ekki með þessum orðum að vísa í afstöðu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í álversmálum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þeirra stefna er stopp í þessum efnum. Aftur á móti var vel tekið í þessar skoðanir mínar í samtölum mínum við einstaka þingmenn. Þegar ég segi svo í ummælum mínum „Það virðist vera breiður grundvöllur... " þá á að túlka þau ummæli í ljósi setningarinnar sem fylgirí kjölfarið en var klippt út í pistlinum þínu þar sem ég held áfram, „ … ég trúi því og vona að ríkisstjórnarflokkarnir taki undir þessa afstöðu".
Ég tel mig hafa útskýrt mitt mál og vona að svör mín verði birt á heimasíðunni.
Kveðjur,
Höskuldur Þórhallsson

þakka bréf þitt. Ég er sammála þér að því leyti að við eigum aldrei að túlka umfram það sem fólk meinar.
Kv.
Ögmundur