Fara í efni

HVAÐ SKYLDU BÍLASALAR SEGJA UM BRENNIVÍNSFRUMVARPIÐ?

Sigurður Kári Kristjánsson, sem harðast berst fyrir því að áfengi verði selt í matvöruverslunum er nokkuð djarfur í yfirlýsingum. Í dagblaðinu 24 STUNDIR þar sem ykkur er stillt upp hvor á móti öðrum Ögmundur, segir sá ágæti maður: "Fjöldi lækna sem ég hef ráðfært mig við telur ekki samhengi á milli aðgengis og neyslu áfengis. Á Grænlandi þar sem aðgengi er hvað verst er neyslan hvað mest." Mér er sagt að staðhæfingin um Grænland sé komin frá Þorvaldi Ingvarssyni, varaþingmanni Sjálfstæðisflokks, í ræðu á Alþingi um frumvarp þeirra Sigurðar Kára og Ágústs Ólafs úr því sem þú kallar frjálshyggjudeild Sjálfstæðis/Samfylkingarflokksins. Þorvaldur er læknir og þykir Sigurði Kára greinilega allt það sem han segir vera ígildi vísindalegrar opinberunar. Ummæli læknisins í þá veru að alkóhólisma á Grænlandi megi skýra í ljósi aðhaldssamrar áfengisstefnu skilur Sigurði Kári þannig að nú sé um að gera að fylla allar hillur í Nóatúni og Bónus af brennivíni. Þá sé þess eflaust skammt að bíða að við verðum laus við áfengisbölið.

Stórfenglastar eru þó yfirlýsingar Sigurðar Kára um að "fjöldi lækna", sem hann hafi ráðfært sig við telji "ekki samhengi á milli aðgengis og neyslu áfengis." Hverjir skyldu þetta nú vera? Gæti verið að þeir væru flestir úr Sjálfstæðis/Samfylkingarflokknum? Hvað skyldu bílasalar úr sama flokki segja, eða hárgreiðslumeistarar? Hvað með lögfræðinga úr Heimdalli? Gæti verið að þeir séu líka sammála Sigurði Kára og félögum um að fela eigi markaðsöflunum að höndla með brennivín?

Auðvitað hlýtur þetta að snúast um annað en hvað fólk í vinakredsum Sigurðar Kára hefur á tilfinningunni. Þetta snýst um staðreyndir sem leiddar eru í ljós með rannsóknum. Niðurstöður rannsókna eru ALLAR á þá lund að samhengi sé á milli aðgengis og verðalgs annars vegar og neyslu hins vegar.
Ég býð því ekki í Grænlendinga ef brennivínið væri ókeypis.
Grímur