Fara í efni

SAMMÁLA KATRÍNU JAKOBSDÓTTUR

Ég er algerlega sammála því sem fram kom hjá Katrínu Jakobsdóttur, varaformanni VG, í Silfri Egils í gær. Að sjálfsögðu er í lagi að Orkuveita Reykjavíkur fari í útrás að því gefnu að það gerist á samfélagslegum forsendum en ekki forsendum peningamanna sem stjórnast af þeirri hugsun einni að maka krókinn. Útrás í samkrulli við slíka braskara er gersamlega út í hött og siðlaus. Þess vegna verður að byrja upp á nýtt og ýta bröskurunum út. Við skulum ekki gleyma því að þeir komu inn í skjóli myrkurs og ólöglegra samninga. Þeim samningum þarf því ekki einu sinni að segja upp eins og málið blasir við frá mínum bæjardyrum. Við getum og eigum að láta gott af okkur leiða til aðstoðar öðrum þjóðum með því að nýta þekkingu okkar í orkumálum. Það gladdi mig að heyra hinar samfélagslegu áherslur í málflutningi Katrínar Jakobsdóttur.
Haffi