Fara í efni

HUGLEIÐINGAR UM VÍNMÁLIÐ

Í Silfri Egils þar sem Sigurður Kári mætti með sýnishorn úr Heimdalli með sér, ásamt tveimur heiðurskonum úr Vinstri grænum og Samfylkingunni, þeim Guðfríði Lilju og Svanfríði Ingu, þá bar ýmislegt á góma. Sigurður sat við sinn keip í vínmatvörumálinu og var kostulegt að sjá upplitið á honum, þegar Svanfríður sagði hvernig verslunin með áfengi yrði í sinni heimabyggð ( Dalvík ) ef frumvarpið yrði að lögum.
Það var greinilegt að SK hafði ekki hugsað málið frá sjónarhóli smærri byggðalaga vítt og breytt um landið.
Ein aðal rökin hjá SK fyrir áfengismatvörufrumvarpinu var að misnotkun fárra á áfengi ætti ekki að hindra aðgang hinna fjölmörgu, sem kunna með áfengi að fara.
Enginn viðstaddra brást við þessu. Egill bara þagði og glotti.
Þetta varð til þess að ég færði þessar hugleiðingar í letur.
Hvað verður ef frumvarpið verður að lögum með þessum rökum?
Næsta mál getur verið að auðvelda aðgengi að ýmiskonar lyfjum, sem nú eru lyfseðilskyld. Því ekki?
Af hverju að láta það kerfi sem nú er bitna á öllum þeim sem kunna með lyf að fara?
Þannig er þessu varið með ýmsar reglur, sem settar hafa verið með almenningshagsmuni í huga. Og þá vil ég benda á að sjálfstæðismenn hafa á stundum þveröfug sjónarmið í huga þegar þeir eiga kost á að setja samborgurum sínum einhverjar reglur að fara eftir.
Tökum sem dæmi: Í Kópavogi hafa sjálfstæðismenn getað ráðskast með almannaheill nú um allnokkra hríð. Þar hafa þeir vegna nokkurra ökufanta látið dreifa hraðahindrunum  (svokölluðum slagbröndum) um margar helstu umferðargötur bæjarins.
Göturnar voru gerðar til að auðvelda umferð, en svo eru hraðahindranirnar settar til að torvelda umferð. Er eitthvert vit í svona vinnubrögðum? Er þetta eina lausnin, sem menn sjá til að sporna við óæskilegum hraðakstri?
Í Kópavogi eru samtals 31 hraðahindrun á 3,6 km leið með tilheyrandi rassaköstum á Álfhólfsvegi, Digranesvegi, Hlíðarvegi og Borgarholtsbraut vestan sundlaugar.
Þegar ekið er eftir þessum götum á skikkanlegum hraða, sem er langt undir leyfilegum hámarkshraða, þá er það heldur dapurlegt að finna til þess að það fer mikið betur um mann í ökutækinu þegar ekið er um Sprengisand.
En hvað um það, beltin bjarga.
Það er heldur sorglegt til þess að hugsa ef aðstandendur áfengisfrumvarpsins sjá þetta sem einu leiðina til þess að komast á spjöld sögunnar og lifa þar í minningu þjóðarinnar um ókomin ár og aldir. Þar gætu þeir komist á stall með Agli Skalla-Grímssyni, en hans er nú helst minnst meðal þjóðarinnar fyrir ruddaskap og hrottaskap.
En það, hvers þjóðin minnist helst í fari manna gæti verið efni í annan pistil.
Svo mælti Sigurjón EVGK