Fara í efni

ÞAÐ HEFUR GEFIST VEL AÐ HUGSA SEM ÞJÓÐARFJÖLSKYLDA!

Sæll Ögmundur!
Ég var að lesa pistil Magnúsar Péturssonar  forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss, og áherslur þínar á skoðun hans og meiningu.
Þú segir:
Í fyrsta lagi er hann að hvetja til umræðu um framtíð íslensku heilbrigðisþjónustunnar. Ekki sé allt sem sýnist í þessari umræðu hvað sem líður því sem sagt sé opinberlega.
Í öðru lagi segir hann breytt rekstarform sem lausn á vanda heilbrigðisþhjónustunnar iðulega vera sjónarspil.
Í þriðja lagi
kveðst hann óttast að við stefnum hraðbyri inn í einkavætt heilbrigðiskerfi. Umræðu um það verði að taka. Vilji stjórnvalda muni sjást í verki við afgreiðslu fjárlaga.” Ég segi:
Ég tel að þessi samantekt þín sé hárrétt!
Í fyrsta lagi verður auðvitað að ræða þessi áríðandi mál með þátttöku almennings. Þetta á ekki að vera neitt leyndamál frekar en önnur mál sem snerta hagsmuni þjóðarinnar að einhverju leyti!
Í öðru lagi er ekkert annað sjálfsagðara en að öll opinber þjónusta sé rekin á eins hagkvæman hátt og mögulegt er, án þess þó að skerða hana á nokkurn hátt gagnvart neytendum, hvorki að gæðum né kostnaði. Þvert á móti á að stefna að því að bæta og uppfæra allan opinberan rekstur í heilbrigðisgeiranum, stanslaust!  Þú mátt bóka það Ögmundur, að það verður ekki betur gert með einkaframtakinu en hinu opinbera!  Það hefur hvergi í heiminum tekist betur gagnvart hinum sjúku, að einkaframtakið taki við hjúkrunargeiranum af hinu opinbera. Í Bandaríkjunum er rándýrt einkarekið heilbrigðiskerfið bókstaflega að hrynja um sjálfa sig vegna ofurkostnaðar og getuleysis! Auðvitað er líf og hjúkrun tryggð þeim sem hafa nóga peninga þar sem auðvaldið ræður lögum og lofum. Það á hins vegar ekki við um “gráan” almenning sem verður að líða.  Fólk verður að íhuga þetta, áður en það verður of seint!  Staðreyndirnar blasa við okkur! Það er hárrétt hjá Magnúsi Péturssyni að einkavæðingarvinirnir eru með “sjónarspil” eða sjónhverfingar eins og ég mundi kalla það. Þeir reyna að stefna heilbrigðisþjónustunni í einkarekstur til að geta grætt á henni.  Þeirra stefna er einfaldlega að ríkið borgi þeim af skattpeningum vinandi fólks, þeir reki síðan heiðbrigðisþjónustuna og hirði gróða í eigin vasa. Það dettur engum í hug að einkagróðafólkið ætli sér að reka heilbrigðisþjónustuna fyrir ekki neitt, og ef gróðinn er ekki nægilegur, nú þá bara að heimta meira fé af (skattgreiðendum), þ.e. ríkinu og láta sjúklingana sjálfa borga eins mikið og hægt er að pína út úr þeim. Ef fólk lætur sér detta í hug að þetta einkagróðafyrirkomulag sé betra en hið opinbera sem við búum við nú, þá er það ekki lítið blekkt og galið!  
Í þriðja lagi,  þá er peningurinn aðalmálið eins og fyrri daginn,“ríkisfjárframlagið” til heilbrigðisþjónustu landsmanna!  Þetta gengur allt út á peninga, annars vegar gróðavon einkaframtaksins og kverkatak auðvaldsins á þjóðfélaginu og hins vegar vonarhyllingar hinna blekktu!  Samfélagseign og opinbe rrekstur er bara að flækjast fyrir þeim sem vilja græða á náunganum í stað þess að vinna fyrir sér með heiðarlegri atvinnu! Hvers vegna finnur þetta fólk aldrei upp á neinu nýju sjálft heldur ásælist það sem þegar er búið að byggja upp? Einkaframtakinu finnst gróðavænlegra að stela því sem íslenska þjóðin hefur haft mikið fyrir að byggja upp og eignast í þágu allrar þjóðarinnar!  Það er engin sem bannar einkaaðilum  að byggja sín sjúkrahús og jafnvel að stofna sínar sjúkratryggingar og reka það allt eins og þeim sýnist í samkeppni við félagslega-opinbera þjónustu. Það bannar þeim einginn svo lengi að þeir fylgi lögum og reglum. En það er ekki þetta sem þeir vilja. Þeir eru ekki að sækjast eftir samkeppni heldur skattpeningum! Til stendur að ræna eignum þjóðarinnar og koma síðan í veg fyrir hvers kyns samkeppni. Það yfirgengilega er að allt skuli þetta gert í nafni einkaframtaksins og samkeppni! Þess vegna er nær að tala um sjónhverfingu og lyga áróður en “sjónarspil”! 
Eða þekkja menn ekki söguna, er hún öllum gleymd? Það er ekki ýkja langt síðan einkaframtakið rak sjúkrahús hér á landi, en það var einmitt vegna getuleysis þess framtaks, að félagslega formið var valið!
Það voru félagslega opinberlega rekin sjúkrahús og heilbrigðisþjónusta sem vann á einum mesta berklafaraldri heims, hér á Íslandi, sem varð frægt meðal læknavísindanna um allan heim!  SÍBS er sprottið upp úr félagasamtökum – ekki gróðafyrirtæki – sem síðan tók höndum saman með hinu opinbera. Eins var með sulla og mæðuveiki kinda sem vannst með sama hætti. Það má nefna fjöldann allan annan af áþekkum dæmum, sem ekki er hægt að telja upp í stuttum pistli.  Heldur einhver að einkaframtakið hefði hlaupið í skarðið á þessum tímum með enga gróðavon?  Heldur t.d. einhver að hin mikli athafnafrelsissinni og vísindafrömuður, Níels Dungal prófessor, hefði tekið á málum sínu annálaða grettistaki á sviði læknavísinda, hefði hann þurft að treysta á fjárframlag frá einkagróðamönnunum?  Nei, það var íslenskur almenningur sem stóð að kostnaðinum og naut réttilega afraksturins!
Ögmundur, þá er aðal spurningunni ekki enn svarað, hvernig á að fjármagna okkar opinberu heilsu- og hjúkrunarþjónustu í dag?  Því skal ég gjarnan svara í öðrum pistli en get sagt að þá horfi ekki síst til sparnaðar í utanríkisþjónustu, að sögunni heyri til fjáraustur í hrernaðarbrölt og ég horfi til eðlilegrar og sanngjarnrar skattlagningar á fólk sem ekki veit aura sinna tal.
Að einu ætla ég þó að víkja nú. Oft heyrast menn stæra sig af fjáraustri úr sameiginlegum hirslum okkar til erlendra þjóða, að okkur Íslendinga muni sko ekkert um að ausa peningum út og suður, hvort sem það er til að setja einhverja spjátrunga í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að þjóna þar árásaráætlunum Bandaríkjanna, eða til að aðstoða vesöld á erlendri grundu, allt til að taka af þrýstingin af böðlunum sem níðast á hnium þjáðu. Og ef, og þegar, hinum þjáða auðnast að reisa sig við, er þeim gert að skilyrði fyrir frekari aðstoð af hálfu stofnana sem "við" styðjum, að einkavæða eignir sínar og síðan kaupa vopn af hergangaframleiðendum í ríka heiminum. Hvenær ætla menn að skilja að svona "aðstoð" er verri en engin. Eigum við ekki að hætta að tala um hve rík og aflögufær við séum á með við ekki búum íslenskum löndum okkar mannsæmandi ævikvöld?
Á meðan við ekki getum rekið eigin skóla, lögæslu, byggt fangelsi fyrir glæpamenn sem þjaka þjóðfélagið, endurhæft fíknilyfjaþræla og nauðgara, hvað þá rekið eigin heilbrigðisþjónustu – hjúkrunarþjónustu og líknarþjónustu, sem við höfum gert með sóma í áraraðir þar til nú, skulum við hætta þessu mont tali um ríkidæmi Íslendinga. Og gleymum ekki að velferðarþjónustuna rákum við betur þegar engum manni kom til hugar að grobba sig af ríkidæmi þjóðarinnar! 
Við höfum til þessa rekið heilbrigðisþjónustuna á þeirri forsendu að við værum Íslendingar sem fyndum þjóðlega og félagslega ábyrgð hvert gagnvart öðru sem  samborgarar,,,, þjóðarfjölskylda!
Höfum þessu gömlu góðu gildi í heiðri. Þá mun okkur vegna vel.
Með kveðju,
Helgi