Fara í efni

HRÓPANDI RANGLÆTI GAGNVART LÍFEYRISÞEGUM

Ég get ekki annað en tekið undir með Helga Hjálmarssyni, formanni Landssambands eldri borgara: “OF LÍTIÐ OF SEINT. Vonandi ferð þú þér hægt við að hæla Jóhönnu og Co fyrir viðleitnina þó hún sé góðra gjalda verð.  Ég bendi á:

·       Áfram eru greiðslur úr séreignarsjóði launþega skattlagðar eins og launatekjur, en ekki eins og fjármagnstekjur.

·       Áfram koma greiðslur frá lífeyrissjóðum til frádráttar eftirlaunum úr almannatryggingakerfinu. Engin man lengur eftir að forsenda fyrir því að tekin var upp almenn skylduaðild að lífeyrissjóði að hún átti ekki að skerða greiðslur úr almannatryggingakerfinu.
Aðild að lífeyrissjóðunum átti ekki að koma til með að skerða greiðslur almannatrygginga. Launþegar þess tíma greiddu sérstakt almannatryggingagjald sem átti að tryggja þeim lífeyri.

·       Vextir sem lífeyrisþegar fá t.d. af húsbréfum sem þeir fá ef þeir selja íbúð/húseign og taka á leigu húsnæði hjá Hrafnistu og/eða Sunnuhlíð koma að fullu til frádráttar ellilífeyri Tryggingastofnunar. En alvarlegra er að ef þetta fólk verður fyrir því að húsbréf þess eru dregin út þá eru þessir einstaklingar afgreiddir eins og fjársvikamenn sem hafi haft rangt við í samskiptum sínum við Tryggingastofnun.

·       Á það má benda, að einstaklingur má afla sér allt að 100 þús. kr. í vinnutekjur án þess að það komi til frádráttar ellilífeyris almannatrygginga. Hvers vegna gildir ekki það sama um greiðslur frá lífeyrissjóðum a.m.k. fyrir sömu upphæð? Það er fullkomið óréttlæti að láta þá einstaklinga sem hófu greiðslur á grundvelli blekkinga 1974 og nú eru að fara á marg verðfelldan lífeyri uppskerða svikin loforð og fyrirheit. Það er ranglæti af verstu tegund að þeir skuli   ekki í það minnsta njóta sömu réttinda og þeir sem afla sér viðbótartekna.

·       Verðum við ekki að gera kröfu um að lágmarkslífeyrir sé a.m.k. 200 þús. krónur.
Bestu kveðjur,
Gunnar Gunnarsson