Fara í efni

MISSKIPTING ÓGNAR SAMHELDNI

Ég vildi bara þakka þér fyrir frábæra síðu Ögmundur, ég er ein þeirra fjölmörgu sem hlakka til að lesa pistlana þína á hverjum degi, enda er síðan eitt öflugasta málgagn réttsýni í okkar samfélagi... Ég vil sérstaklega fá að taka undir grein ykkar Þuríðar Einarsdóttur um nauðsyn þess að hækka laun fólks í almannaþjónustunni. Það ætti að vera ólíðandi fyrir okkur öll að horfa upp á hvernig þeir hópar sem síst skyldi - þær stéttir sem raunverulega halda samfélaginu gangandi - hafa dregist aftur úr. Mér þótti vænt um að sjá ykkur nefna póstþjónustuna sérstaklega, þótt auðvitað nái þetta til allrar grunnþjónustu samfélagsins. Ein af mínum nánustu frænkum vinnur einmitt í póstþjónustunni (og reyndar fleiri góðar frænkur!) og mér ofbjóða hin lágu laun sem þeim er boðið upp á. Fólkið þar er einmitt að vinna núna eilífar vaktir fyrir jólin og ágætt að hugsa til þeirra allra sem fá enga lausa stund þessa dagana... Svo er nú konan mín ljósmóðir og þar eru launin jafn afkáraleg og lýsa rammskökku gildismati samfélagsins. Hið sama á við um alltof margar lykilstéttir okkar samfélags. Okkur er sagt að allir séu að græða á öllum milljörðunum, allir séu að hagnast, líka þau sem höllum standa fæti, en það er jú bara ein af þessum blekkingum sem haldið er á lofti og gera illt verra með því að afvegaleiða umræðuna. „Sá söngur mun eflaust hefjast að ekki megi spenna bogann of hátt, stöðugleikanum megi ekki ógna. Nú er það hins vegar svo að undir verðbólgubálinu hafa engir láglauna- og millitekjuhópar kynt. Þar hafa aðrir kyndarar verið að verki." Já, þar hafa aðrir kyndarar verið að verki, sannarlega ekki frænkur í póstþjónustu eða aðrir láglauna- og millitekjuhópar. Það er svívirðilegt ef því er haldið fram að leiðrétting á þeirra kjörum sé ógn við samfélagið, ógn við stöðugleikann, það er einmitt hið gagnstæða sem er reyndin: misskiptingin er ógn við samfélagið allt, ógn við stöðugleika. Að ég tali nú ekki um hversu mikil ógn þetta er við hugmyndir okkar um sanngirni og réttsýni, skiptir það ekki líka máli? Skiptir ekki máli að við séum öll á sama báti? Megi þeir nú finna til ábyrgðar sinnar sem raunverulega hafa staðið sveittir um langa hríð við kyndinguna - og grætt á tá og fingri.
Baráttukveðjur, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir