Fara í efni

BRESTIR INNAN STJÓRNARFLOKKANNA?

Í 24 Stundum lýsir Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, því yfir að honum líði vel í ríkisstjórninni. Í Silfri Egils lýsir Ragnheiður E. Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, því yfir að sér líði afar vel í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og bætti því við að hún þakkaði almættinu fyrir að vera ekki í samstarfi við Vinstrihreyfinguna grænt framboð, nokkuð sem ég hef grun um að Össur hefði getað hugsað sér. Hefur þú skýringu á því Ögmundur, hvers vegna stjórnarsinnar eru svona uppteknir af því að tala um vellíðan sína í ríkisstjórn?
HaffI

Ég hef grun um að mat þitt á ástarjátningum Össurar í garð Sjálfstæðisflokksins kunni að vera réttar, tilraun til sjálfsefjunar. Ragnheiður held ég að sé mjög einlæg í feginleik sínum yfir að geta óhindrað rekið einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðiskerfinu, virkjað Þjórsá í þágu stóriðju og gert allt það góða sem VG er andvígt og hefði aldrei leyft. Síðan er hitt að þessar sjóðheitu yfirlýsingar um hamingjuna í Stjórnarráðinu vekja spurningu um hvort hamingjan sé í reynd svona mikil. Það er nú stundum þannig að þegar brestir koma í samstarf á milli flokka eða innan flokka þá er stundum reynt að tala samstarfið upp. Brestirnir held ég að séu ekki á milli flokkanna heldur innan þeirra.
Kv.
Ögmundur