Fara í efni

HVER BER ÁBYRGÐ Á BILUNUM?

Sæll Ögmundur .
Mig langar til að byrja á að þakka þér fyrir allt gamalt og gott og ánægjulegt samstarf á liðnum árum. Þinghaldið byrjar vel á nýju ári: Árni Þór hóf leikinn með breiðsíðuárás á fjármálaráðherrann og fer mjög faglega að. Við borð liggur að maður kenni dálítið í brjósti um þennan gæfulitla hrossalækningameistara. Erindi mitt að þessu sinni er reyndar þessi einkennilega frétt Morgunblaðsins í gær um að Sultatangavirkjun sem ku framleiða ein 120 megavött er óstarfhæf um þessar mundir og er talið að svo verði enn um sinn. Hver er skýringin á þessu? Hvernig má það vera að þetta opinbera fyrirtæki Landsvirkjun sitji uppi með vandræði af virkjun sem þó var tekin í notkun rétt upp úr aldamótunum sé óstarfshæf vegna einhverra bilana? Eðlilegt er að skattborgari spyrji: Hvenær komu þessar bilanir upp og hvaða ráð eru uppi að koma virkjun þessari í það lag að hún færi bæði orku og yl til landsmanna sem og annarra orkukaupenda? Hversu mikið er tap Landsvirkjunar á degi hverjum vegna þessara bilana og hver ber ábyrgð? Voru gallar augljósir á spennum eða þeim mikilvægu rekstrareiningum sem ollu biluninni fyrirsjáanlegir? Hver ber ábyrgðina? Þetta eru auðvitað örfáar en mikilvægar spurningar sem gjarnan má koma áleiðis til þeirra reikulu og ráðalausu stjórnarherra sem nú sitja í ríkisstjórninni. En trúlega verður þetta notað til að spenna rafmagnsverð upp fyrir alþýðuna í landinu. Ekki verður sjálfgerð hækkun á álfurstana sem búa við fast orkuverð. Spurning hvort þarna verði ekki einnig verðbólguástæða rétt eins og þegar Davíð kynti undir verðbólgubálið 1982? Þá leyfi eg mér að endurtaka óánægju mína með að ekki eitt einasta morgunkorn hefur birst á heimasíðu VG síðan í maí s.l. vor. Þetta nær ekki nokkurri átt! Við eigum marga mjög ritfæra og víðsýna einstaklinga innan okkar raða sem geta stútfyllt hverja síðuna á fætur annarri. Má t.d. benda á: mosi.blog.is en eg hefi ásamt mjög mörgum öðrum verið ötull að taka þátt í stjórnmálaumræðunni að undanförnu og vakið máls á ýmsu sem þarf að taka á. En óskandi er að Eyjólfur hressist og það sem fyrst! Með bestu kveðjum úr Mosfellsbænum,
Guðjón Jensson